Þyrlusveit og björgunarskip kölluð út vegna fiskibáts í vanda

29. janúar, 2025

Björgunarskipið Björg tók fiskibát í tog.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá fiskibáti sem staddur var um hálfa sjómílu undan Svörtuloftum á Snæfellsnesi um klukkan fimm í morgun.

Tveir voru um borð í bátnum og tjáðu þeir varðstjórum stjórnstöðvar að báturinn væri stjórnvana og ræki með sjávarfallastraumi norður með landinu.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út ásamt sjóbjörgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Snæfellsnesi.

Áhöfnin á björgunarskipinu Björgu frá Rifi var fyrst á vettvang og klukkan 5:45 var fiskibáturinn kominn í tog hjá áhöfn björgunarskipsins. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var þá afturkölluð og björgunarskipið hélt með fiskibátinn á Rif.

Landhelgisgæslan hefur tilkynnt Rannsóknarnefnd samgönguslysa um atvikið.

TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar.