Þyrlurekstur í 60 ár

30. apríl, 2025

Í dag fagnar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar merkum tímamótum því 60 ár eru frá því að fyrsta þyrla Landhelgisgæslunnar var tekin í notkun 30. apríl 1965. Þyrlan var af gerðinni Bell 47j og var keypt til landsins í samvinnu við Slysavarnafélag Íslands. Þyrlan, sem fékk einkennisstafina TF-EIR, var í notkun þar til í október 1971 en þá […]

Í dag fagnar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar merkum tímamótum því 60 ár eru frá því að fyrsta þyrla Landhelgisgæslunnar var tekin í notkun 30. apríl 1965. Þyrlan var af gerðinni Bell 47j og var keypt til landsins í samvinnu við Slysavarnafélag Íslands. Þyrlan, sem fékk einkennisstafina TF-EIR, var í notkun þar til í október 1971 en þá brotlenti hún í rannsóknarflugi í Rjúpnafelli án þess að manntjón yrði.

Árið 1972 eignaðist Landhelgisgæslan svo sína fyrstu eiginlegu björgunarþyrlu, TF-GNA. Hún var af tegundinni Sikorsky S-62, sérstaklega hönnuð til gæslu yfir sjó og gat borið tíu farþega eða sex menn í sjúkrakörfum. Þá var þyrlan búin björgunarspili sem gat híft tvo menn í senn og auk þess með flotholt til að lenda á sjó eða í djúpum snjó. Þyrlunni hlekktist á eftir aðeins þrjú ár í þjónustu Landhelgisgæslunnar. Í október 1975 brotlenti hún í Skálafelli eftir að öxull í stélskrúfunni hafði brotnað. Engan sakaði.
Árið 1973 keypti Gæslan tvær litlar þyrlur af gerðinni Bell, TF-HUG og TF-MUN. Stærðar sinnar vegna voru bundnar vonir við að þær gætu reynst vel til að lenda á palli varðskipanna. Þyrlurnar ollu hins vegar miklum vonbrigðum, eftir röð óhappa var hætt að nota þær í desember 1974.

Í stað þyrlunnar sem brotlenti í Skálafelli var ný þyrla keypt árið 1976. Hún var af gerðinni Sikorsky S-76 og skráð TF-RAN. Þyrlan var sérhönnuð til landhelgisgæslu og með öflugan lyftibúnað til björgunarstarfa.

8. nóvember 1983 varð hins vegar sá hörmulegi atburður að TF-RAN fórst í æfingaflugi í Jökulfjörðum og með henni fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Þetta er mannskæðasta slys sem orðið hefur í sögu Gæslunnar.

Um miðjan níunda áratuginn stóð Landhelgisgæslan á erfiðum tímamótum. Eftir slysið í Jökulfjörðum var alvarlega rætt um að hætta alfarið þyrlurekstri og láta í staðinn varnarliðið alfarið um leit og björgun með þyrlum. Sem betur fer var horfið frá þeim áformum og í staðinn ákveðið að setja enn meiri kraft í þennan þátt starfseminnar. Það var ekki síst fyrirstilli sjálfra starfsmanna stofnunarinnar að ákveðið var að halda þyrlurekstrinum áfram.


Árið 1985 var Dauphin II-þyrlan TF-SIF tekin í notkun og segja má að með komu hennar hafi þyrlusveit Landhelgisgæslunnar tekið á sig þá mynd sem við þekkjum í dag. Tíu árum síðar eða árið 1995 var Super Puma þyrlan TF-LIF keypt til landsins en þyrlan var öflug og reyndist sérlega vel við íslenskar aðstæður. Áhafnir Landhelgisgæslunnar unnu mörg frækin björgunarafrek á TF-SIF og TF-LIF.

Á árunum 2019-2021 var þyrlufloti Landhelgisgæslunnar endurnýjaður þegar Airbus H225 Super Puma þyrlunar TF-EIR, TF-GNA og TF-GRO voru teknar í notkun.
Í dag eru starfandi sex þyrluáhafnir hjá Landhelgisgæslunni sem sinna fjölbreyttum verkefnum, bæði á sjó og landi, allt árið um kring. Þyrlusveitin æfir nær daglega og sinnir fjölmörgum útköllum ár hvert. Í fyrra sinnti þyrlusveitin til að mynda metfjölda útkalla en sveitin var þá kölluð út í 334 skipti.

Landhelgisgæsla Íslands er afar stolt af þyrlusveitinni sem hefur í sextíu ár verið til taks fyrir land og þjóð.