Georg í viðtali við Sjókastið

11. júní, 2025

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, er gestur Aríels Péturssonar í nýjasta þætti Sjókastsins. Georg fer yfir víðan völl í viðtalinu og ræðir m.a. um umfangsmikið hlutverk Landhelgisgæslunnar þegar kemur að öryggisgæslu og eftirliti á hafsvæðinu umhverfis Ísland. ,,Gæslan er einn af hornsteinum okkar skipulags. Landhelgisgæslan er eina tækið sem við getum notað til að […]

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, er gestur Aríels Péturssonar í nýjasta þætti Sjókastsins. Georg fer yfir víðan völl í viðtalinu og ræðir m.a. um umfangsmikið hlutverk Landhelgisgæslunnar þegar kemur að öryggisgæslu og eftirliti á hafsvæðinu umhverfis Ísland.

,,Gæslan er einn af hornsteinum okkar skipulags. Landhelgisgæslan er eina tækið sem við getum notað til að gæta að fullveldinu í kringum landið, að hafa stjórn á því hverjir koma hér og hvað þeir gera. Að skip séu ekki að losa hér úrgang eða fari hér með ólögmætan farm eða komi að landi með eitthvað sem á ekki að koma að landi, hvort sem það er í formi eiturlyfja, einhverskonar varnings eða jafnvel fólks í nauð. Þetta verðum við bara að gera. Við verðum að vera fær um að sinna okkar öfluga fólki sem er við störf lengst út á sjó og koma því á rétta staði ef á bjátar þar.”

Georg hefur verið forstjóri Landhelgisgæslunnar frá árinu 2005 en var þar áður forstjóri Útlendingastofnunar, settur lögreglustjóri í Reykjavík, sýslumaður í Vestmannaeyjum, skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, bæjarfógeti í Kópavogi og borgardómari í Borgardómi Reykjavíkur.

Í viðtalinu fer Georg yfir ferilinn en rifjar einnig upp æskuárin í Holti í Önundarfirði.

Hlekk á viðtalið má finna í ummælum hér að neðan.

#9 Georg Lárusson – forstjóri Landhelgisgæslunnar – YouTube