Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefur að undanförnu borist fjöldi ábendinga um borgarís á veiðislóðum og siglingaleiðum umhverfis landið. Eins og alltaf þegar slíkar tilkynningar berast eru lesnar út siglingaviðvaranir þar sem sjófarendur eru upplýstir um staðsetningu íssins. Vegna fjölda tilkynninga var ákveðið að áhöfnin á TF-EIR færi í ískönnunarflug á siglingaleiðinni undan Norðvesturlandi, þ.e. frá Sauðanesi að Hornbjargi og á veiðislóð norður af Ströndum.
Vel viðraði til ískönnunarflugsins í gær og þegar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var stutt vestur af Skagatá kom áhöfnin auga á fyrsta borgarísjakann. Þyrlusveitin tilkynnti stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um borgarísinn og í kjölfarið var siglingaviðvörun gefin út enda var ísinn í siglingaleið skipa á þessum slóðum.
Þyrlusveitin hélt ferð sinni áfram og þegar hún var stödd norður af Hornbjargi varð áhöfnin vör við stóran borgarís í veðurratsjá þyrlunnar en hann var djúpt undan landi. Áhöfnin hélt á staðinn og þegar þyrlan var um 42 sjómílur norður af bjarginu blasti 300 metra langur, 300 metra breiður og allt að 75 metra hár borgarís við áhöfninni.
Miðað við stærð íssins og dýpis á svæðinu þóttu allar líkur á því að ísinn væri strandaður. Áhöfnin notaði tækifærið hélt stutta æfingu þar sem sigmaður þyrlusveitarinnar seig niður á ísinn og var svo hífður upp stuttu síðar.
Til samanburðar má nefna að Hallgrímskirkja er 74,5 metrar á hæð.
Landhelgisgæslan hvetur sjófarendur til að sína sérstaka aðgát á þessum slóðum.