Krefjandi aðstæður þegar rússneskur skipverji var sóttur norðaustur af landinu

2. september, 2025

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni um aðstoð frá skipstjóra rússnesks fiskiskips sem var statt djúpt norðaustur af Langanesi og utan íslenskrar efnahagslögsögu, vegna veikinda eins skipverjans um borð.

Eftir samráð við lækni var talið að koma þyrfti manninum undir læknishendur á Íslandi. Varðstjórar í stjórnstöðinni báðu skipstjórann að sigla nær landi og inn í íslenska efnahagslögsögu. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út um kvöldmatarleytið í gær og flaug til að byrja með til Þórshafnar þar sem áhöfnin hvíldist á meðan skipið sigldi nær landi.

Klukkan 4:30 tók þyrlusveitin á loft frá Þórshöfn. Afar slæmt skyggni var á staðnum þar sem fiskiskipið og þyrlusveitin mættust en þrátt fyrir þessar krefjandi aðstæður gengu hífingar vel. Þegar þeim var lokið var flogið með skipverjann á Sjúkrahúsið á Akureyri en þar lenti þyrlan á sjöunda tímanum í morgun.

Þessu langa verkefni lauk svo þegar þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli á tíunda tímanum í morgun.