
Í dag eru 50 ár frá því að íslensk stjórnvöld færðu fiskveiðilögsöguna út í 200 sjómílur. Með breytingunni stækkaði lögsagan úr 216 þúsund ferkílómetrum í tæplega 760 þúsund ferkílómetra.
Í ávarpi Geirs Hallgrímssonar, þáverandi forsætisráðherra, til þjóðarinnar sagði: ,, Lífsbjörg okkar er í veði og málstaður okkar svo sterkur, að sigur mun vinnast með fullum yfirráðum Íslendinga yfir fiskimiðunum.“
Matthías Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið þann 15. október 1975 að með gildistöku hinnar nýju reglugerðar yrðu lagðar stórauknar skyldur á Landhelgisgæsluna og fyrirséð væri að verkefni hennar myndu margfaldast.
Spá sjávarútvegsráðherrans reyndist rétt því í kjölfarið tók við harðasta þorskastríðið með ásiglingum breskra verndarskipa og botnvörpuklippingum íslensku varðskipanna.
Sumarið 1976 náðust sáttir í deilunni og var samið um að 24 breskir togarar mættu veiða innan 200 mílna lögsögunnar til 1. desember sama ár og síðan ekki meir. Þar með lauk deilunum og átöktunum sem fylgt höfðu útfærslu efnahagslögsögunnar undanfarna áratugi.

