Hallbjörg og Halla í London

21. nóvember, 2025

Starfsfólk Landhelgisgæslunnar sinnir verkefnum á vegum Atlantshafsbandalagsins, í umboði utanríkisráðuneytisins, í herstöðinni í Norfolk í Bandaríkjunum og flotastjórnstöð NATO í Northwood í Bretlandi, MARCOM. Þá er starfsmaður Landhelgisgæslunnar starfandi sem landsfulltrúi Íslands í SHAPE,
yfirherstjórnarmiðstöð Atlantshafsbandalagsins, í Mons í Belgíu.

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hefur í vikunni verið í vinnuferð í Bretlandi en tilefni ferðarinnar var einkafundur forseta með Karli 3. Bretakonungi í Buckingham-höll, sem fram fór í gær, 20. nóvember.

Í heimsókninni sótti forseti líka sendiráð Íslands heim og hittir þar Íslendinga búsetta í Bretlandi. Meðal þeirra sem forsetinn ræddi við í sendiráðinu var Hallbjörg Erla Fjeldsted, starfsmaður Landhelgisgæslunnar, sem starfar nú á vegum utanríkisráðuneytisins í MARCOM, flotastjórnstöð Atlantshafsbandalagsins í Northwood.

Vel fór á með Hallbjörgu og Höllu eins og meðfylgjandi mynd ber með sér.