
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist þrjú útköll í gær. Í gærmorgun var óskað eftir aðstoð sveitarinnar vegna veikinda á hafi úti, norður af landinu, síðdegis vegna umferðarslyss í nágrenni við Blönduós og svo í gærkvöld vegna umferðarslyss við Vatnsdalsá á Vestfjörðum.
Á sjöunda tímanum í morgun hafði skipstjóri íslensks fiskiskips samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð vegna veikinda eins skipverjans um borð.
Skipið var þá statt norður af Siglufirði.
Stjórnstöðin kallaði tvær þyrlur út eins og alltaf er gert þegar farið er út fyrir 20 sjómílur frá ströndu.
Þyrlusveitin tók á loft frá Reykjavík og flaug í átt að skipinu með stuttri viðkomu á Akureyri þar sem eldsneyti var tekið. Hífingar fóru fram um 55 sjómílur NNV af Siglunesi.
Þegar þyrlusveitin kom að skipinu var tengilínu komið fyrir um borð í skipinu. Því næst fór sigmaður þyrlusveitarinnar um borð í skipið og klæddi skipverjann í sérstakan búnað fyrir hífinguna sem fór fram um 55 sjómílur NNV af Siglunesi. Vel gekk að koma manninum um borð í þyrluna og í kjölfarið var hann fluttur á Landspítalann í Reykjavík.
Síðdegis var aftur óskað eftir aðstoð þyrlusveitarinnar vegna umferðarslyss í nágrenni Blönduóss. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug á Blönduóssflugvöll og flutti þrjá úr slysinu á Landspítalann í Fossvogi.
Þriðja útkallið barst Landhelgisgæslunni klukkan ellefu í gær vegna bílveltu við Vatnsdalsá. Ákveðið var að mótstaður yrði við Melanes þar sem hinn slasaði var fluttur um borð í þyrluna og flogið með hann til Reykjavíkur þar sem hann komst undir læknishendur.