Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, í heimsókn hér á landi

27. nóvember, 2025

Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, kom til landsins í morgun ásamt fylgdarliði og kynnti sér m.a. öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, tók á móti Rutte við stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins.  Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri varnarmálasviðs Landhelgisgæslunnar fór yfir þá umfangsmiklu starfsemi sem fram fer á svæðinu, þar með talið daglega framkvæmd verkefna sem þar fer fram í samvinnu við stofnanir bandalagsins.

Rutte flaug með þyrlusveit Landhelgisgæslunnar frá öryggissvæðinu til Reykjavíkur en flogið var yfir Grindavík, hraunbreiðurnar á gosstöðvunum og Fagradalsfjall. Kristín Jónsdóttir frá Veðurstofu Íslands fræddi framkvæmdastjórann og ráðherra um það sem fyrir augum bar og rakti sögu jarðelda á svæðinu og áhrif á íbúa og innviði.  Að því búnu var lent við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Þar tók Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, á móti framkvæmdastjóranum og utanríkisráðherra, ásamt Ásgrími L. Ásgrímssyni, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs, Bjarna Sigurðssyni, flugrekstrarstjóra, og Sigurði Heiðari Wiium, yfirflugstjóra.