
Hin árlega jólastund Landhelgisgæslunnar var haldin í flugskýlinu á Reykjavíkurflugvelli í gær. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, flutti ávarp og fór yfir það helsta sem framundan er hjá Landhelgisgæslunni. Hann sagði Landhelgisgæsluna standa á tímamótum því á næsta ári verða liðin 100 ár frá stofnun hennar.
Rannveig Hreinsdóttir, bryti á varðskipinu Freyju, flutti jólaguðspjallið að þessu sinni. Þá flutti Jóhanna Guðrún og Ingvar Alfreðsson nokkur vel valin jólalög. Einnig voru stórafmælisbörn ársins einnig heiðruð.
Þá voru starfsmenn sem létu af störfum heiðraðir og þeim þakkað fyrir vel unnin störf. Þeir Haukur Davíð Ágústsson, Haraldur Benediktsson og Rafn Sigurgeir Sigurðsson létu allir af störfum á árinu eftir langan og farsælan feril hjá Landhelgisgæslunni.
Haukur Davíð Haukur er síðasta þorskastríðshetjan sem kemur í land. Hann tók þátt í tveimur þorskastríðum, fyrst á Óðni og svo á Tý, þegar fiskveiðilögsagan var færð úr í annars vegar 50 sjómílur og hins vegar 200 sjómílur.
Haukur Davíð fór fyrstu ferðina árið 1972, þá 16 ára. Samkvæmt lögskráningargögnum hefur Haukur verið lögskráður í 12.207 daga á sjó og þá má bæta við tíma sem hann var á varðskipinu TÝ þegar skipið var leigt til Svalbarða og sigldi undir norskum fána. Því má gera ráð fyrir að Haukur hafi verið um borð í skipum Landhelgisgæslunnar í um 12500 daga eða rúmlega 34 ár.



Rannveig Hreinsdóttir, bryti á Freyju, flutti jólaguðspjallið að þessu sinni.

Haukur Davíð tekur við þakklætisvotti.