Þyrlusveitin sótti slasaðan sjómann í allhvassri austanátt vestur af Vestfjörðum

5. desember, 2025

Skipstjóri íslensks fiskiskips hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í dag og óskaði eftir aðstoð vegna skipverja sem slasaðist á hendi. Skipið var þá statt vestur af Vestfjörðum.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út til að flytja manninn á sjúkrahús í Reykjavík. Þegar þyrlusveitin kom á staðinn var talsverð hreyfing á skipinu og allhvöss austanátt. Sigmaður þyrlunnar fór um borð í skipið og undirbjó skipverjann sem var hífður í þyrluna. Að því búnu flaug þyrlan með manninn á Reykjavíkurflugvöll þar sem sjúkrabíll beið og flutti hann á Landspítalann.