Rússnesk fiskiskip á lögsögumörkunum austan við landið

8. desember, 2025

Í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð fer fram eftirlit og vöktun með hafsvæðinu umhverfis landið.

Alls voru 295 skip í kerfum stjórnstöðvarinnar í morgun en það eru bæði skip innan íslensku efnahagslögsögunnar auk skipa á nærliggjandi svæðum.

Athygli vakti að fimm rússnesk skip voru á veiðum rétt utan lögsögumarkanna. Landhelgisgæslan hefur í gegnum tíðina sagt frá veiðum rússneskra fiskiskipa sem hafa verið á úthafskarfaveiðum á Reykjanesshrygg, utan íslenskrar lögsögu, en veiðar rússneskra fiskiskipa á lögsögumörkunum austan við landið hafa hingað til ekki verið algengar.

Eftirlit og löggæsla með íslensku lögsögunni fer bæði fram með fjareftirliti og gervitunglum samhliða rauneftirliti sem fer fram með TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, varðskipunum Þór og Freyju auk þyrlum Landhelgisgæslunnar.

Varðskip landhelgisgæslunnar hafa verið við eftirlit við austanvert landið að undanförnu og hefur m.a. verið farið um borð í erlend skip sem stunda síldveiðar innan lögsögunnar. Áfram verður fylgst vel með ferðum þessara skipa.

Skip í kerfum Landhelgisgæslu Íslands í morgun.