
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í kvöld tilkynning um merki frá neyðarsendi á Reykjanesi. Í fyrstu var talið að merkið bærist frá hafi, vestur af Stafnesi.
Kafbátaleitarflugvél frá konunglega breska flughernum flaug yfir svæðið í þeim tilgangi að miða merkið út. Engra skipa né báta var saknað á svæðinu. Eins og alltaf er gert við slíkar kringumstæður var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kölluð út til að hefja eftirgrennslan sem og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar úr Sandgerði. Þá leitaði lögreglan á Suðurnesjum á landi.
Eftir stutta leit kom í ljós að merkið barst úr persónulegum neyðarsendi á Keflavíkurflugvelli sem hafði farið af stað fyrir slysni og því var engin hætta á ferðum.