
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, tók formlega á móti ómannaða neðansjávarfarinu GAVIA AUV í dag. Stefán Reynisson, framkvæmdastjóri Teledyne Gavia afhenti farið. Um samstarfsverkefni Landhelgisgæslu Íslands og utanríkisráðuneytisins er að ræða en Háskóli Íslands færði Landhelgisgæslunni farið til eignar fyrr á árinu.
Prófanir fóru fram á neðansjávarfarinu síðast liðið sumar þar sem lagnaleiðir tveggja nýrra rafstrengja til Vestmannaeyja voru m.a. kannaðar með búnaði farsins sem og lagnaleið rafstrengs yfir Arnarfjörð.
Neðansjávarfarið er útbúið hliðarsónar (e. Side Scan Sonar) sem getur kortlagt hafsbotninn og hluti sem þar eru með mikilli nákvæmni niður í að minnsta kosti 300 metra dýpi. Það verður gert út frá varðskipum Landhelgisgæslunnar og sjómælingaskipinu Baldri. Á undanförnum vikum hafa farið fram uppfærslur og viðbætur á neðansjávarfarinu sem fjármagnaðar voru af utanríkisráðuneytinu.
Neðansjávarfarið mun nýtast Landhelgisgæslunni við hin ýmsu verkefni leitar og könnunar á hafsvæðinu umhverfis landið, til eftirlits og öryggisgæslu og einnig í tengslum við varnartengd verkefni. Teledyne Gavia er íslenskt fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í framleiðslu slíks búnaðar um árabil.




