
S.l. föstudag var ný útgáfa af Tilkynningum til sjófarenda, útgáfa 13 2025, send áskrifendum og birt á vefnum, sjá hér.
Í þessari útgáfu var tilkynnt um útgáfu nýrrar Vitaskrár, sem er gefin út í samvinnu við Vegagerðina og má finna hér. Þessi nýja Vitaskrá er með örlítið breyttu sniði en inniheldur samskonar upplýsingar og útgáfur síðustu ára.
Þessu til viðbótar var tilkynnt um færslu á ljósdufli við Akraneshöfn, en það er vegna yfirstandandi framkvæmda við höfnina.
Tilkynnt er um tvö rannsóknardufl, staðsetningu þeirra og auðkenni í AIS kerfinu.
Svæði fyrir tilraunaeldi á skelfisk NA af Skarðsstöð í Breiðafirði.
Tímabundnar tilkynningar eru einnig um framkvæmdir í höfn Borgarfirði eystri, óáreiðanlegt ljósdufl við höfnina í Hólmavík, möguleg frávik á vitaljósi og ljósgeirum í Hríseyjarvita og að radarsvari í Hvanneyjarvita við Höfn á Hornafirði er óvirkur.
Þess ber að geta að á þessu ári er mesti fjöldi Tilkynninga til sjófarenda sem Landhelgisgæslan og áður Sjómælingar Íslands hafa sent út á einu ári, 138 tilkynningar.
Þetta er þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár.
Má ætla að aukin vitneskja um þessar tilkynningar, bæði sjófarenda og annarra hagsmunaaðila, eigi þátt í aukningunni.
Að leið og við þökkum öllum fyrir samskipti og samstarf á árinu þá óskum við ykkur gleðilegra jóla, árs og friðar á komandi ári.