Töluverður viðbúnaður vegna tilkynningar um neyðarmerki

22. desember, 2025

Áhöfnin á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, og áhöfn eftirlitsflugvélar danska flughersins leituðu á hafsvæðinu um 140 sjómílur suðvestur af Reykjanesi í kjölfar tilkynningar sem barst frá áhöfn einkaflugvélar sem taldi sig sjá neyðarmerki skotið á loft í morgun.

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fengu tilkynningu um málið á níunda tímanum. Áhöfnin á TF-SIF var þegar í stöð kölluð út til leitar auk þess sem þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var sett í viðbragðsstöðu á Reykjavíkurflugvelli. Þá var leitað til Slysavarnafélagsins Landsbjargar og tveir björgunarsveitarmenn fengnir til að fara með áhöfn flugvélarinnar. Jafnframt var haft samband við dönsku herstjórnina á Grænlandi sem kallaði út eftirlitsflugvél frá danska flughernum til leitar. Í kerfum Landhelgisgæslunnar var ekkert skip á umræddu svæði né heldur flugvél. Þrátt fyrir það þótti brýnt að ganga úr skugga um að enginn væri í vanda staddur á svæðinu.

Áhöfnin á TF-SIF setti upp leitarferla þegar hún kom á svæðið og leitaði í um fjórar klukkustundir. Leit danska flughersins stóð jafn lengi yfir. Leitarsvæðið var víðfeðmt, eða um 5500 ferkílómetrar.

Leitin bar ekki árangur og á fjórða tímanum var henni hætt. Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru í dag um borð í TF-SIF.