
Nokkrum sinnum á ári kemur það fyrir að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sinni fjórum útköllum sama daginn og það gerðist einmitt í gær, sunnudag.
Aðfaranótt sunnudagsins kallaði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar áhöfnina á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, út vegna umferðarslyss í Svínadal en þar hafði bíll oltið. Þyrlusveitin tók á loft á fjórða tímanum og lenti á Kambsnesi þar sem tveir ungir menn voru í sitthvorum sjúkrabílnum. Sá þriðji hafði þegar verið fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur. Mennirnir tveir voru færðir um borð í þyrluna og fluttir á Landspítalann í Fossvogi.
Um leið og þyrlan lenti í Reykjavík, laust eftir klukkan fimm um morguninn, hófst undirbúningur fyrir næsta útkall. Skipstjóri íslensks fiskiskips, sem statt var um 75 sjómílur vestur af Garðskaga, hafði óskað eftir aðstoð þyrlusveitarinnar vegna skipverja um borð sem hafði slasast á hendi
Áhöfn þyrlunnar skipti því yfir í sjógalla og tók eldsneyti áður en tekið var á loft að nýju. Sigmaður þyrlunnar fór um borð í skipið og undirbjó manninn fyrir hífingu, sem gekk vel. Flogið var með hann á Reykjavíkurflugvöll þar sem sjúkrabíll beið og flutti á Landspítalann.
Síðdegis í gær og í gærkvöld var þyrlusveitin svo kölluð út í tvígang vegna bráðra veikinda á Snæfellsnesi. Fyrst á sjötta tímanum og síðan laust fyrir miðnætti. Í bæði skiptin flaug þyrlan að Vegamótum þar sem sjúkrabíll beið á planinu austan Vatnaleiðarvegar og var sjúklingunum komið undir læknishendur í Reykjavík.