Leki kom að fiskibát vestur af Hafnarbergi

5. janúar, 2026

Leki kom að fiskibát sem staddur var um 2 sjómílur vestur af Hafnarbergi á fimmta tímanum í dag. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning um málið um klukkan 16:15. Varðstjórar í stjórnstöð kölluðu þegar í stað út áhöfnina á TF-GNA, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem var á æfingu í Hvalfirði auk sjóbjörgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum. Tveir voru um borð í fiskibátnum og hófu þeir að dæla sjó úr bátnum en samkvæmt fyrstu upplýsingum höfðu dælurnar nokkuð illa undan.

Þyrlusveitin gat brugðist hratt við og var komin á vettvang rúmum tuttugu mínútum eftir að útkallið barst. Ekki var talin þörf á að hífa mennina um borð en ákveðið var að þyrlan færi til Sandgerðis til að sækja sjódælur svo hraða mætti útdælingunni. Sigmaður þyrlunnar seig niður til mannanna með dælurnar og um svipað leyti komu björgunarskip Landsbjargar á vettvang með mannskap og fleiri dælur. Vel gekk að dæla sjó úr bátnum.

Bátnum er nú fylgt til hafnar af Hannesi Þ. Hafstein, björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, og hefur þyrlu Landhelgisgæslunnar verið snúið aftur til Reykjavíkur.