Útkalla- og flugtímafjöldi ársins 2025

8. janúar, 2026

Flugdeild Landhelgisgæslunnar sinnti 264 útköllum á árinu 2025, þar af sinnti áhöfnin á eftirlitsflugvélinni TF-SIF níu útköllum og 255 útköllum var sinnt af þyrlusveitinni. 97 útköll voru farin út á sjó eða rúmlega þriðjungur allra útkalla. Flugvélin TF-SIF var töluvert meira til taks á Íslandi en oft áður og nýttist vel til leitar og eftirlitsflugs.

Af útköllum sem farin voru út á sjó voru sjö útköll þar sem farið var lengra en 150 sjómílur frá ströndu.

Útköll ársins 2025 eru nokkuð færri en metárið 2024 þegar flugdeildin var kölluð út í 334 skipti. Eftir metár í fjölda útkalla árin 2022,2023 og 2024 fækkar útköllum í fyrsta skipti síðan árið 2020. Útkallafjöldi ársins 2025 var svipaður og árið 2021 en þá voru þau 265.

Þó heildarútköllum fækki á milli ára er fjöldi útkalla á fyrsta forgangi svipaður og árið 2024.  Af útköllunum 264 voru 130 þeirra á mesta forgangi en í fyrra voru þau 135. Það þýðir að útköllum á öðrum og þriðja forgangi fækkar nokkuð á milli ára. Sem fyrr voru flest útköllin sjúkraflutningar vegna veikinda eða slysa eða alls 131.

Á árinu 2025 flugu þyrlurnar 938 flugstundir og flugstundir á TF-SIF voru 570.