Áfram fylgst með vinnu Seabed Worker

Umhverfisstofnun veitti Advanced Marine Services tveggja vikna viðbótarfrest til áframhaldandi framkvæmda.

  • Thorogseabet3-

26.6.2018 Kl: 15:50

Varðskipið Þór og TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, hafa undanfarna daga fylgst með vinnu rannsóknarskipsins Seabed Worker sem kom inn í efnahagslögsöguna á föstudag. Skipið hefur leitað að verðmætum í flaki þýska skipsins SS Minden sem sökk 24. september 1939 um 120 sjómílur suðaustur af Kötlutanga.

Landhelgisgæslan fékk upplýsingar frá skipinu að kvöldi föstudagsins 22. júní um að framkvæmdir væru hafnar en þá var kafbátur frá Seabet Worker sendur að flaki SS Minden. Samkvæmt undanþágu á gildistíma starfsleyfis sem Umhverfisráðuneytið veitti Advanced Marine Services í síðustu viku hafði fyrirtækið þrjá sólarhringa til að freista þess að ná verðmætum úr flaki SS Minden, frá upphafi framkvæmda.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Landhelgisgæslan hefur er flak SS Minden nokkuð heillegt og liggur rétt á hafsbotni. Til stendur að hafist verði handa við að skera brúna af með sérstökum glussaklippum og þannig komist inn í skipstjórnarklefann. Finnist engin verðmæti þar verður sú hæð skorin af svo hægt verði að komast í klefana fyrir neðan.

Löggæslumenn frá varðskipinu Þór fóru um borð í Seabet Worker á sunnudag og fengu upplýsingar um framvindu aðgerðanna.

Strax frá upphafi var ljóst að ekki tækist að ljúka við verkið á þremur sólarhringum en talið er að aðgerð af þessari stærðargráðu taki að lágmarki 10 daga. Vinnudýpi framkvæmdanna er um 2280 metrar en veður og sjólag á svæðinu hefur verið slæmt.

Í apríl 2017 hafði Landhelgisgæslan afskipti af rannsóknarskipinu Seabed Constructor sem athafnaði sig á svæðinu í óljósum tilgangi. Skipinu var stefnt til hafnar vegna gruns um að það stundaði ólöglegar rannsóknir. Síðar á árinu sóttu leigutakarnir um leyfi frá Umhverfisstofnun til verðmætabjörgunar úr flaki SS Minden sem sökk á þessum slóðum í byrjun seinna stríðs. Leyfið gilti til 1. maí 2018. Seabed Constructor hélt úr lögsögunni í apríl 2017 án þess að taka með sér verðmæti úr SS Minden.

Í gær veitti Umhverfisstofnun Advanced Marine Services tveggja vikna viðbótarfrest til áframhaldandi framkvæmda eða til 10. júlí 2018. Landhelgisgæslan mun eftir sem áður fylgjast með aðgerðunum næstu daga en í starfsleyfinu er Seabet Worker bundið af því að veita Landhelgisgæslunni upplýsingar um staðsetningu og framvindu tvisvar á sólarhring.

Thorogseabet5Varðskipið Þór hefur fylgst með aðgerðum Seabed Worker undanfarna daga en er nú farið af svæðinu. Áfram verður þó fylgst með gangi mála.