Áhafnir á varðskipi og þyrlu að störfum á Vestfjörðum
-Snjóflóðaeftirlit og vistum komið til bónda
18.3.2020 Kl: 16:11
Áhöfnin á varðskipinu Tý hefur staðið í ströngu í dag við snjóflóðaeftirlit og skimun í Önundarfirði. Varðskipsmenn hafa siglt um fjörðinn á léttbát Týs og kannað hvort þar hafi fallið snjóflóð á vegi. Óvissustig vegna snjóflóða er enn í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Varðskipið verður til taks á svæðinu meðan óvissa ríkir.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar mun einnig sinna verkefnum á Vestfjörðum í dag í samvinnu við lögregluna og Veðurstofu Íslands. Áætlað er að þyrlusveitin sæki kost til Ísafjarðar og fljúgi með hann til bónda í Skjaldfannardal í Ísafjarðardjúpi sem hefur ekki sökum veðurs geta komist til að sækja vistir.
Að því búnu mun áhöfnin sinna upplýsingaöflun fyrir ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands. Stefnt er á að fljúga yfir ákveðin svæði á Vestfjörðum svo hægt sé að meta snjóflóðahættu á svæðinu.
Að lokum verður haldin sameiginleg æfing þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar og áhafnarinnar á varðskipinu Tý í Önundarfirði í kvöld.
Meðfylgjandi myndir tók Guðmundur St. Valdimarsson.
Varðskipið Týr í Önundarfirði í dag. Ljósmynd: Guðmundur St. Valdimarsson.
Thorben Lund, skipherra, og Óskar Skúlason, háseti, við snjóflóðaeftirlit í Önundarfirði. Flateyrarhlíð