Áhöfn Freyju siglir um miðin á varðskipinu Þór
Síðustu dagar hafa verið annasamir um borð í Þór en áhöfnin var meðal annars til taks á Austfjörðum vegna snjóflóðahættu um liðna helgi.
8.4.2024 Kl: 15:53
Hjá Landhelgisgæslunni eru starfandi tvær varðskipsáhafnir sem starfa um borð á varðskipunum Þór og Freyju. Að undanförnu hefur varðskipið Freyja verið í smávægilegu viðhaldi og því hefur áhöfnin á Freyju verið við störf um borð í varðskipinu Þór.
Síðustu dagar hafa verið annasamir um borð í Þór en áhöfnin var meðal annars til taks á Austfjörðum vegna snjóflóðahættu um liðna helgi.
Eins og gengur hefur töluvert verið um æfingar. Í síðustu viku fóru meðal annars fram æfingar í reykköfun og notkun á línubyssu. Þá hefur áhöfn varðskipsins farið til eftirlits í þrettán skip og báta að undanförnu. Í flestum tilfellum hefur allt verið eftir bókinni en smávægilegar athugasemdir um lagfæringar þurfti að gera hjá einhverjum.
Á páskadag hélt áhöfnin hið árlega páskabingó þar sem spilaðar voru níu umferðir og glæsilegir vinningar voru í boði. Áhöfnin vill þakka velunnurum sérstaklega fyrir að leggja þessari árlegu uppákomu lið.
Áhöfnin á varðskipinu hefur farið til eftirlits í þrettán skip og báta upp á síðkastið.
Hið árlega páskabingó.
Reykköfunaræfing um borð í Þór.
Reykköfun æfð.