Áhöfn Þórs beitti klókindum til að ná gömlum legufærum úr sjó

-Öldumælisdufl og ný legufæri sett út undan Grindavík

  • 20220119_164535

27.1.2022 Kl: 11:24

Áhöfnin á varðskipinu Þór sjósetti öldumælisdufl ásamt legufærum undan Grindavík á dögunum. Beita þurfti klókindum til að ná legufærunum upp sem fyrir voru á staðnum.

Páll Geirdal, skipherra á varðskipinu Þór, segir að áhöfnin hafi borið saman bækur sínar og á endanum fundið heppilega aðferð til verksins. ,,Við vorum búnir að hugsa aðeins hvernig við gætum náð upp legufærum eftir að öldumælisdufl slitna frá legufærum sínum. Ein hugmyndin var að nota dragnótastrengi sem er vírmanilla og sekkur. Hringt var í Gunnar L. Gunnarsson fyrrverandi stýrimann hjá Landhelgisgæslunni og athugað hvort hann vissi um strengi á lausu.“

Eftir nokkur símtöl var Gunnar búinn að finna strengi fyrir áhöfnina hjá Nesfisk í Sandgerði og var haldið þangað til að sækja strengina. Ein lítil rúlla var í portinu sem hentaði vel til verksins. Að því búnu var haldið aftur um borð.

,, Við sigldum hring í kringum staðinn, lögðum strenginn utan um og settum lás að auki þannig að strengurinn hertist um legufærin. Þetta gekk afar vel hjá okkur og upp komu 2 milliból, tógi og eitt búnt af akkeriskeðju, alls um 700kg.“ Segir Páll.

Eftir að áhöfn Þórs hafði lokið við að hífa gömlu legufærin upp var öldumælisdufl sett út ásamt nýjum legufærum.

20220119_160429Frá aðgerðum áhafnarinnar á Þór.

20220119_164535

         Verið að setja akkeriskeðjubúntið í kar svo hægt sé að hífa það í land síðar.

20220119_164411

Akkeriskeðjan á uppleið.

IMG_20220119_172403

Öldumælisdufl lagt út ásamt legufærum.