Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar finnur hrakinn ferðamann eftir að neyðarkall barst gegnum gervihnött.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 12:25 í dag stafrænt neyðarkall í gegnum gervihnött. Sendirinn er skráður í Finnlandi en ljóst var þá þegar að handhafi sendisins var staddur á heiðinni vestur af Djúpuvík.

Þá þegar gerði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar lögreglu viðvart sem og Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Einnig hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar strax samband við Björgunarmiðstöðina í Finnlandi sem fljótlega gat sent upplýsingar um eiganda sendisins.

Var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út til leitar sem og allar björgunarsveitir á  Norðvesturlandi. Aðstæður til leitar voru mjög slæmar og útlit fyrir að björgunarsveitir yrðu að fara fótgangandi á vettvang. Vatnavextir voru umtalsverðir, mikil rigning og vegurinn í Kaldbaksvík á Ströndum farinn í sundur sem hefti alla umferð norður á svæðið.

Rúmlega hálfþrjú var TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar komin á svæðið. Heyrði áhöfn þyrlunnar í neyðarsendinum og tókst henni að að fikra sig á punktinn þaðan sem staðsetning sendisins kom frá. Aðstæður á vettvangi voru mjög erfiðar en um klukkan þrjú hafði þyrlunni tekist að lenda á svæðinu og bjarga þeim nauðstadda um borð. Var hann heill á húfi en kaldur og hrakinn. Mun þyrlan fljúga með manninn til byggða þar sem hann mun gangast undir frekari læknisskoðun.