Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar kemur slasaðri göngukonu til bjargar

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst um klukkan 15:45 í gær beiðni um þyrlu vegna göngukonu sem slasast hafði í nágrenni við Strútsskála.

TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið stuttu síðar og hélt áleiðis inn á Fjallabak og sem leið lá að Strút. Ferðafélagar konunnar voru ekki með GPS tæki né höfðu þeir möguleika til fjarskipta við þyrluna. Vitað var að konan var í 14 manna hópi sem var á ferð á milli Strútslaugar og Strútsskála. Því flaug þyrlan eftir gönguleiðinni þar á milli og skimaði eftir fólki í neyð.

Eftir nokkra leit sást til fólks og var því ákveðið að lenda á þeim stað og kanna hvort einhver vitneskja væri í þeim hópi um hina slösuðu. Gat hópurinn þá bent á hvar göngufólkið væri og flaug þyrlan þangað. Göngukonan var þar ofan í þröngu gili ásamt ferðafélögum sínum. Þyrlan lenti á vettvangi en þurfti að lenda efst á gilbarminum þar sem ekki var unnt að komast nær gönguhópnum. Stýrimaður og læknir þyrlunnar gengu því með sjúkrabörur og lækningabúnað niður gilið og voru þeir fyrstu og einu björgunarmenn á vettvang. Hlúðu þeir að sárum konunnar og bjuggu hana síðan til flutnings á sjúkrabörunum. Var konan hífð á sjúkrabörum um borð í þyrluna sem og læknir og stýrimaður. Hélt þyrlan svo áleiðis til Reykjavíkur þar sem lent var rétt fyrir hálfsjö og konunni komið á sjúkrahús.