Áhafnir Baldurs, TF-EIR og Gísla Jóns kallaðar út í nótt

Tvö þyrluútköll á Vestfirði í nótt.

  • Baldur-Gisli-utkall

13.8.2021 Kl: 10:00

Í gærkvöldi hafði skúta sem legið hafði við akkeri á Hornvík samband við sjómælingaskipið Baldur og óskaði aðstoðar Landhelgisgæslunnar. Skútan var þá lögð af stað áleiðis til Ísafjarðar með mjög veikan farþega og fór ástand hans versnandi. Talstöðvasamband við skútuna var slitrótt og datt alveg út þegar hún var komin að og vestur með Hælavíkurbjargi. 

Áhöfnin á Baldri hafði þegar í stað samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem kallað út björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Gísla Jóns, frá Ísafirði og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Áhöfnin á Baldri létti akkeri og hélt á mestu ferð að skútunni. Vegna takmarkaðra fjarskiptaskilyrða við skútuna var áhöfnin á Baldri í lykilstöðu við að koma upplýsingum áleiðis til stjórnstöðvarinnar í Reykjavík og læknis til að meta stöðuna. 

Baldur kom að skútunni skammt norðvestur af Hælavíkurbjargi. Ákveðið að farþeginn yrði fluttur um borð í Baldur þar sem áhöfnin hlúði að honum. Haldið var á mestu ferð áleiðis til Ísafjarðar og í Aðalvík kom sjúkraflutningamaður af björgunarskipinu Gísla Jóns um borð til aðstoðar sem og tveir björgunarsveitarmenn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var komin á staðinn á þriðja tímanum og hífði sjúklinginn um borð í þyrluna og flutti á Landspítalann í Reykjavík.

Þegar þyrlan var nýlent á Reykjavíkurflugvelli var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna veikinda á Patreksfirði. Þyrlan fór því aftur vestur á firði og kom viðkomandi undir læknishendur í Reykjavík. Þyrlan var komin á Reykjavíkurflugvöll klukkan 7:35 í morgun og því er alveg óhætt að segja að nóttin hafi verið annasöm á þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, varðstjórum í stjórnstöð LHG og áhöfninni á Baldri. 

Gisli-JonsUm borð í Baldri.Baldur-utkall