Áhöfnin á TF-GRO sótti slasaðan skipverja

Hífingar fóru fram við Ystaklett

  • Thyrluaefing-2-med-TF-GRO-a-Breidafirdi-8-

24.3.2020 Kl: 7:45

Áhöfnin á TF-GRO sótti slasaðan skipverja um borð í færeyskt línuskip í gærkvöld. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um slys um borð í línuskipinu sem statt var austur af Surtsey. Þyrlan tók á loft frá Reykjavík á sjöunda tímanum í gær en skipið hélt í átt að innsiglingunni að Heimaey.

Þegar TF-GRO kom að skipinu var það komið við Ystaklett og var skipstjóri þess beðinn um að sigla á hægustu stjórnferð í átt að Bjarnarey. Hífingarnar fóru fram á stefni skipsins og gengu vel.

Tíu mínútum eftir að TF-GRO kom að skipinu var hífingunum lokið og maðurinn kominn um borð í TF-GRO. Skipverjanum var í kjölfarið komið undir læknishendur í Reykjavík.