Áhöfnin á Þór aðstoðaði bát í vanda

Handfærabátur óskaði eftir aðstoð áhafnar varðskipsins Þórs.

  • 1_1575026348644

28.11.2019 Kl: 20:15

Þegar varðskipið Þór var í nágrenni Þorlákshafnar á fimmta tímanum í dag hafði handfærabátur, sem var á leið til Þorlákshafnar, samband varðskipið og óskaði eftir aðstoð vegna vélarbilunar. Varðskipið var þá nýbúið að mæta bátnum sem var á innleið til Þorlákshafnar. Áhöfn varðskipsins brást skjótt við og léttbátur varðskipsins var sjósettur einungis þremur mínútum eftir að hjálparbeiðnin barst. 

Handfærabáturinn var tekinn í tog af léttbát varðskipsins til Þorlákshafnar en þangað var komið laust eftir klukkan fimm. Um fimmtíu mínútum eftir að hjálparbeiðnin barst varðskipsmönnum var léttbáturinn og áhöfnin komin aftur um borð í varðskipið Þór. Blíðuveður var á staðnum, nánast logn og ládauður sjór.