Áhöfnin á varðskipinu Freyju hefur verið kölluð út að beiðni lögreglunnar á Vestfjörðum vegna slæmrar veðurspár og hugsanlegrar snjóflóðahættu um helgina.
22.12.2023 Kl: 23:14
Áhöfnin á varðskipinu Freyju hefur verið kölluð út að beiðni
lögreglunnar á Vestfjörðum vegna slæmrar veðurspár og hugsanlegrar
snjóflóðahættu um helgina. Gert er ráð fyrir að skipið haldi úr höfn á
Siglufirði um miðnætti og verði komið vestur á firði í fyrramálið.
Almannavarnir hafa vakið athygli á að veðurspá helgarinnar
er ekki góð og hætta á að færð spillist og snjóflóðahætta myndist á
Vestfjörðum. Átján manna áhöfn skipsins, sem var á bakvakt, brást skjótt við
kallinu og hóf þegar undirbúning fyrir brottför.
Miðað við veðurspá eru allar líkur á að skipið verði til
taks á Vestfjörðum fram yfir helgi.