Aldarfjórðungsafmæli ratsjárstöðvanna

25 ár um þessar mundir síðan stöðvarnar á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli voru teknar í notkun

Um þessar mundir eru 25 ár síðan ratsjárstöðvarnar á Bolafjalli við Ísafjarðardjúp og Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi voru teknar í notkun. Stöðvarnar eru hluti af íslenska loftvarnakerfinu, sem aftur er hluti af samþættu loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins. Tvær aðrar stöðvar falla undir kerfið, önnur á Miðnesheiði, hin á Stokksnesi austan Hornafjarðar. Í stjórnstöðinni á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli er unnið úr upplýsingum sem stöðvarnar fjórar senda frá sér og þeim miðlað. Landhelgisgæslan annast rekstur kerfisins.

Í Morgunblaðinu 29. janúar 1992 var sagt frá því að tilraunarekstur væri hafinn í stöðvunum á Bolafjalli og Gunnólfsvíkurfjalli, eða norðurstöðvanna eins það var orðað. Formleg opnun yrði síðar á árinu. Haft var eftir Guðjóni Sigurðssyni, þáverandi deildarstjóra hjá Ratsjárstofnun, að markmiðið með tilraunarekstrinum væri að sjá hvernig merkin frá stöðvunum kæmu út. Uppbyggingin væri liður í endurnýjun ratsjárkerfisins sem grundvallaðist á samkomulagi sem gert var við Bandaríkjastjórn árið 1985. Stöðvarnar á Miðnesheiði og Stokksnesi voru svo teknar í notkun nokkru síðar.

Ratsjár- og fjarskiptastöðvarnar eru búnar fullkomnum ratsjáreftirlitsbúnaði til eftirlits með flugumferð, öruggum fjarskiptabúnaði til samskipta milli stjórnstöðva á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli við herflugvélar og herskip og gagnatengingum sem einnig tengja saman stjórnstöðina við herskip og herflugvélar. Þá er stjórnstöðin í daglegum samskiptum við stjórnstöðvar NATO og bandalagsþjóðanna og að auki í samskiptum við þær stofnanir sem að verkefninu koma hér á landi. Þar með talið er stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Reykjavík og flugleiðsöguþjónusta Isavia.