Allnokkrir bátar án lögskráningar

Strandveiðisjómenn eru hvattir til að huga að því að lögskráning sé fullnægjandi

Annar dagur strandveiðitímabilsins 2017 er runninn upp. Víðast hvar er betra veður á miðunum en í gær, einkum sunnanlands og vestan, og því eru talsvert fleiri bátar á sjó en þá. Að því er fram kemur í gögnum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar var 551 skip á Íslandsmiðum um hádegisbilið í dag, þar af má gera ráð fyrir að hátt í þrjú hundruð séu á strandveiðum.

Þótt flestir strandveiðisjómenn gæti þess að hafa sín mál í lagi hafa verið nokkur brögð að því að lögskráningu á báta sé ábótavant. Að sögn Jóns Páls Ásgeirssonar, yfirstýrimanns á aðgerðasviði LHG, voru fjörutíu strandveiðibátar á sjó án lögskráningar klukkan átta í morgun. Í gær var sama uppi á teningnum, aðgerðasvið LHG hafði samband hátt í fjörutíu báta vegna þess að lögskráning á þá var ófullnægjandi.

Í lögum nr. 35 frá 2010 um lögskráningu sjómanna segir skýrt að óheimilt sé að leggja skipi úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm. Landhelgisgæslan sinnir eftirliti með lögskráningu í íslenskum skipum og sé henni ábótavant ber að kæra það. Í lögunum segir ennfremur að við ítrekuð brot megi færa skip til hafnar og þau geti varðað sektum eða jafnvel fangelsi. Áður en kæra er gefin út fá skipstjórnendur svigrúm til leiðréttingar á lögskráningu, „stuttan tíma“ eins og segir í núgildandi lögum en var sólarhringur í eldri lögum.

Jón Páll segir ýmsar ástæður gefnar fyrir að lögskráningin sé í ólagi. Sumir sjómenn bera við gleymsku, þá eru skírteinismál í ólagi hjá öðrum en skipstjórnendur þurfa að endurnýja skírteini sín og sækja slysavarnaskóla sjómanna á fimm ára fresti. Þá ferst stundum fyrir að tilkynna Samgöngustofu um að tryggingar skipverja séu í lagi. Loks eru nokkrir sem huga ekki að þessum málum fyrr en rétt áður en strandveiðarnar hefjast, en þá er fullseint í rassinn gripið.

Ekki þarf að hafa mörg orð um mikilvægi þess að sjófarendur gæti þess að lögskráningin sé í lagi. Annmarkar á slíku geta haft afleiðingar, meðal annars þegar kemur að tryggingum.

Myndin sem fylgir þessari frétt er úr safni LHG og tengist efni hennar ekki beint.