Alþjóðleg æfing sprengjusérfræðinga hafin

Northern Challenge 2017 fer fram á Suðurnesjum næstu tvær vikur

Æfingin Northern Challenge 2017 hófst í morgun á Suðurnesjum. Um er að ræða árlega alþjóðlega æfingu fyrir sprengjusérfræðinga og er hún sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Æfingin er í umsjón séraðgerða- og sprengjueyðingarsviðs Landhelgisgæslunnar, sem einnig annast skipulagningu hennar og stjórnun. Fjölmargir aðrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar koma að æfingunni auk þess sem varðskip, þyrla, sjómælingabátur og stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar taka þátt. Atlantshafsbandalagið styrkir verkefnið.

 Northern Challenge-æfingin er haldin á starfssvæði Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, gamla varnarliðsvæðinu og hafnarsvæðum í nágrenninu.

 Þetta er í sextánda skipti sem Northern Challenge er haldin og stendur æfingin yfir í hálfan mánuð, dagana 1.-12. október. Að þessu sinni taka þátt 33 lið frá 15 ríkjum og heildarfjöldi þátttakenda er um 300. Þá fylgist fjöldi erlendra gesta með æfingunni.

 Tilgangur Northern Challenge er að æfa viðbrögð við hryðjuverkatilfellum þar sem heimatilbúnar sprengjur koma við sögu. Samskonar búnaður og fundist hefur víðsvegar um heiminn síðastliðin ár er útbúinn og aðstæður í kring hafðar eins raunverulegar og hægt er. Einnig er rannsóknarþátturinn tekinn fyrir þar sem vettvangur er rannsakaður og farið er yfir sönnunargögn. Í æfingunni er notast við sérútbúna rannsóknarstofu sem sett er upp þessum tilgangi. Þá er jafnframt virkjuð sérhæfð stjórnstöð þar sem öll uppsetning og verkfyrirkomulag er samkvæmt alþjóðlegum NATO-ferlum.