Annáll 2018

Viðburðaríkt ár á enda

  • Thor-i-Flatey

28.12.2018 KL: 9:05

 

Nú þegar árið 2018 er að renna sitt skeið er vel við hæfi að líta um öxl og rifja upp eftirminnilega atburði og augnablik. Mikið álag hefur verið á fjölmörgum deildum Landhelgisgæslunnar og þegar ellefu mánuðir voru liðnir af árinu höfðu loftför stofnunarinnar farið í 265 útköll og hafa þau aldrei verið fleiri. Af einstökum málum vakti mikla athygli þegar rifbeinsbrotinn sigmaður Landhelgisgæslunnar bjargaði 15 skipverjum Fjordvik við erfiðar aðstæður í Helguvík. Flugvélin TF-SIF fann um 2900 manns við Miðjarðarhaf í vetur og æfing Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture, setti svip sinn á starfsemi Gæslunnar í haust. 

Á síðasta degi ársins 2018 horfir Landhelgisgæslan björtum augum til framtíðar og hlakkar til ársins 2019. Við óskum landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.

Hér að neðan er stiklað á stóru í starfseminni á árinu 2018 eins og hún blasti við í fréttum á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.

Janúar

Thor-i-Flatey

Á fyrstu dögum ársins 2018 höfðu heimamenn í Flatey á Breiðafirði samband við Landhelgisgæsluna vegna yfirvofandi vatnsskorts á eynni. Áhöfnin á Þór brást hratt og örugglega við og dældi þrjátíu tonnum af ferskvatni yfir í eyna. Verkefni var svo endurtekið í maí þar sem vatnsbirgðir höfðu tæmst. Sérstakt dýptarkort var unnið af sjómælingafólki til að auðvelda varðskipinu Þór að athafna sig við bryggjuna í Flatey.

 

Febrúar

Coko-og-kleins

 

 

Ungir athafnamenn vöktu athygli þjóðarinnar í febrúar en bræðurnir Daníel og Róbert Stefánssynir seldu gestum og gangandi Cókó og kleins við Gróttu. Viðtökurnar voru afar góðar og létu þessir frábæru bræður hluta söluandvirðisins renna til Landhelgisgæslunnar. 

Coko-og-kleins2Skýringin á því er að þegar faðir þeirra slasaðist alvarlega um borð í hvalveiðiskipi fyrir nokkrum árum flutti þyrla Landhelgisgæslunnar hann á sjúkrahús. Bræðrunum var svo í stutt útsýnisflug með TF-SYN. Aðspurðir að loknu flugi sögðu þeir bræður að ferðin hefði verið „alveg geðveik,“ enda ekki amalegt að geta virt fyrir sér sölusvæðið við Gróttu úr lofti. 

Danir-frettatilkynning_1545063098107Þota danska flughersins. 

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins hófst að nýju með komu danska flughersins. Alls tóku um 60 liðsmenn danska flughersins þátt í verkefninu. Liðsmenn bandaríska flughersins komu svo til loftrýmisgæslu í júlí og rúmum mánuði síðar var komið að liðsmönnum ítalska flughersins.

Sigurdur-SteinarFerð varðskipsins Þórs í apríl var um margt sérstök því skipherra ferðarinnar, Sigurður Steinar Ketilsson, fór þá í sína síðustu ferð eftir hálfrar aldar farsælan feril hjá Landhelgisgæslunni. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar söfnuðust saman við Faxagarð í Reykjavík þegar skipherrann kom til Reykjavíkur í sinni síðustu ferð.

 

Sigurdur-Steinar2Georg Kr. Lárusson flytur ávarp þegar Sigurður Steinar kom heim úr sinni síðustu ferð sem skipherra. Mynd: Árni Sæberg.

EMpire-woldÍ lok apríl var varðskipið Þór við sjómælingar þar sem dýpi var mælt með fjölgeisladýptarmæli skipsins. Á innanverðum Faxaflóa urðu skipverjar og sjómælingamenn um borð í varðskipinu Þór varir við þúst á hafsbotni sem vakti sérstaka athygli og var talið mögulegt að um skipsflak væri að ræða. 

Dscf3814_1545063592338

Ekki var vitneskja um skipsflak á þessum slóðum og því ákvað Landhelgisgæslan að kanna málið betur. Sjómælingabáturinn Baldur var sendur út til rannsókna með fjölgeisladýptarmæli en einnig var hafður með í för sjálfstýrður kafbátur frá Teledyne Gavia sem skannaði þústina með hliðarhljóðsjá. Gögn frá mælingum Baldurs og Gavia staðfestu að um flak breska dráttarbátsins Empire Wold, sem fór með allt að 17 mönnum, væri að ræða.

 

Hafis_1545063902986Hafís var óvenju nálægt landi í upphafi sumars. Landhelgisgæslan fylgdist náið með hreyfingu íssins, meðal annars með ískönnunarflugi loftfara.



 

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á fallegu sumarkvöldi í júní þegar tilkynning barst um flugslys í Kinnarfjöllum. Tveir voru um borð og voru þeir fluttir heilir á húfi á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Elvar-steinn-thorvaldsson-tf-gnaÞyrlur Landhelgisgæslunnar hafa aldrei farið í fleiri útköll og í ár.

Vélarvana skemmtibátur sem staddur var á Breiðafirði óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar í júní. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði sjómælingabátinn Baldur út en hann var staddur við Brjánslæk. Áhöfnin á Baldri brást hratt og örugglega við beiðninni og hélt þegar í stað til móts við skemmtibátinn. Skömmu síðar eða um 9:30 var áhöfn Baldurs komin á staðinn og tók  fólkið um borð og dró bátinn til hafnar í blíðskaparveðri. Sex voru um borð í skemmtibátnum, þar af tvö börn, en ekkert amaði að fólkinu og engin hætta var á ferðum. Baldur dró bátinn til Brjánslækjar og var kominn þangað tæpri klukkustund eftir að útkallið barst.

Georg-og-GudniGeorg Kristinn Lárusson, Vala Georgsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson.

Um miðjan júní steig Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á skipsfjöl á varðskipinu Þór ásamt fylgdarliði. Þetta var í fyrsta sinn sem forseti Íslands gistir um borð í varðskipi í rúm þrjátíu ár en það gerði frú Vigdís Finnbogadóttir síðast á níunda áratug síðustu aldar.

AkureyVarðskipið Þór tók ísfisktogarann Akurey AK-10 í tog til Reykjavíkur eftir að skipið varð vélarvana djúpt vestur af Vestfjörðum í júní.

Fylgst með vinnu Seabed Worker

Í lok júní fylgdist Landhelgisgæslan með vinnu rannsóknarskipsins Seabed Worker sem kom inn í  efnahagslögsöguna til að leita að verðmætum í flaki þýska skipsins SS Minden. Varðskipið Þór og TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, fylgdust með vinnu rannsóknarskipsins auk þess sem áhöfn þess veitti Landhelgisgæslunni upplýsingar um framvindu framkvæmdanna. Landhelgisgæslunni er ekki kunnugt um að vinna Seabed Worker hafi fundið verðmæti í skipsflakinu.

Seabed-workerVarðskipið Þór og rannsóknarskipið Seabed Worker.

Í júní fór fram afar vel heppnuð ráðstefna Samtaka evrópskra sig- og björgunarmanna hér á landi. Sigmenn Landhelgisgæslunnar höfð veg og vanda að skipulagningu ráðstefnunnar sem heppnaðist einstaklega vel.

Ráðstefna sigmanna

TF-SIF-arosum-

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, fór í sjúkraflug með bráðveikan sjúkling alla leið til Árósa í júlí.  Í fluginu voru auk sjúklings, læknir, hjúkrunarfræðingur og tveir aðstandendur. Flugið til Árósa tók fjóra og hálfan tíma og gekk vel. TF-SIF er útbúin til sjúkraflutninga en í henni er gott rými og góð vinnuaðstaða til að sinna sjúklingum í flugi. Í áhöfn Landhelgisgæslunnar voru tveir flugmenn, tveir skipstjórnarmenn og flugvirki.

Herdasfloi

Árni Freyr Sigurðsson spilmaður að störfum. Maðurinn náði að komast í björgunarbát.

 

Mannbjörg varð þegar eldur kom upp í bát á Héraðsflóa í júlí.  Einn var um borð í bátnum og tókst honum að komast í björgunarbát. TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar, var við leit á Melrakkasléttu þegar tilkynning um slysið barst og var áhöfn hennar þegar í stað beðin um að halda á vettvang. Rétt rúmum hálftíma eftir að TF-SYN var kölluð út var var búið að hífa manninn um borð í þyrluna, úr björgunarbátnum. Aðstæður til björgunar á Héraðsflóa voru góðar og var maðurinn við góða heilsu þegar honum var bjargað um borð í þyrluna. Þegar TF-SYN hélt af vettvangi logaði enn eldur í bátnum.

MAgnus-Palmar-Jonsson-

Í áhöfn þyrlunnar voru Þórarinn Ingi Ingason, flugstjóri, Tryggvi Steinn Helgason, flugmaður, Magnús Pálmar Jónsson, sigmaður og yfirstýrimaður og Árni Freyr Sigurðsson, spilmaður og flugvirki.

John-Richardsson

John Richardsson aðmíráll, yfirmaður bandaríska sjóhersins, kom hingað til lands í júlí og kynnti sér starfsemi Landhelgisgæslunnar í Keflavík. Ricardsson skoðaði aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli og hitti bandaríska flugsveit sem stödd er hér á landi. Fulltrúar Landhelgisgæslunnar, utanríkisráðuneytisins og bandaríska sendiráðsins tóku á móti Richardsson við komuna til landsins.

Sogulegt-sjukraflut-TYR-TF-LIF

Í byrjun ágúst fór TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, í sögulegt sjúkraflug þegar bráðveik kona var sótt af skemmtiferðaskipi um 150 sjómílur norðaustur af Melrakkasléttu. Vegna vegalengdarinnar að skipinu varð þyrlan að halda að varðskipinu Tý, sem var á siglinu um 60 sjómílur norðaustur af Melrakkasléttu, til eldsneytistöku. Í fyrsta sinn notast við sérstakan HIFR búnað í Tý sem gerði þetta sögulega sjúkraflug mögulegt. Á leiðinni að skemmtiferðaskipinu var 705 lítrum dælt á þyrluna en á heimleiðinni var rúmlega 1100 lítrum dælt á þyrluna af varðskipinu.

TF-LIFÁhöfn þyrlunn­ar frá vinstri eftir hið sögulega sjúkraflug: Hreggviður Sím­on­ar­son sigmaður, Andri Jó­hann­es­son flugmaður, Hlyn­ur Þor­steins­son lækn­ir, Jón Tóm­as Vil­hjáms­son spilmaður og Sig­urður Ásgeirs­son flug­stjóri. Mynd: Árni Sæberg.

SprengjaSprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir út í ágúst að beiðni Lögreglunnar á Austurlandi eftir að fjórir drengir á aldrinum 11-12 ára fundu torkennilegan hlut. Drengirnir voru þá að leik við Seyðisfjörð. Við nánari athugun lögreglu og sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar kom í ljós að um virka sprengjukúlu væri að ræða. Ákveðið var að hún yrði gerð óvirk og henni eytt.

Í lok september æfði áhöfnin á TF-SYN lendingar á þyrlupalli með danska varðskipinu Vædderen á norðanverðum Faxaflóa. Æfingin gekk vonum framar og alls voru æfðar átta lendingar við góð skilyrði. Eins og meðfylgjandi myndir sýna glögglega eru þyrluáhafnir Gæslunnar þrautþjálfaðar.

Lending á Vædderen

Sprengjuserfraedingur

Árleg æfing sprengjusérfræðinga, Northern Challenge, var haldin á Suðurnesjum og í Hafnarfjarðarhöfn í september. Þetta var í sautjánda sinn sem æfingin er haldin og að venju voru það sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sem skipulögðu æfinguna og stýrðu af sinni einstöku röggsemi en að æfingunni koma hátt í 300 manns.

 

FrostiSigmaður Landhelgisgæslunnar fer um borð í Frosta.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá togskipinu Frosta ÞH229 í október. Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kölluðu þá þegar út tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar sem og varðskipið Tý, sem var statt í Ísafjarðardjúpi. Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Gunnar Friðriksson, var einnig beðið um að halda rakleiðis á vettvang auk skipa í grenndinni. Togskipið var þá statt um 45 sjómílur vest-norðvestur af Straumnesi. Tólf voru í áhöfn Frosta og kom fram að allir væru heilir á húfi en hugsanlegt að einn skipverji væri með reykeitrun. Stundarfjórðungi eftir að neyðarkallið barst frá Frosta barst stjórnstöðinni tilkynning um að búið væri að einangra eldinn í vélarrúminu en reykur væri um allt skip, nema í brú þess. TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, hélt beint á staðinn og kom að Frosta um klukkan 17:25 og hífði einn skipverja frá borði. Hann var fluttur til Ísafjarðar vegna gruns um reykeitrun en þaðan var honum flogið með sjúkraflugvél Mýflugs. Hin þyrlan, TF-SYN, flaug vestur með fimm slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins

Foggo

Æfing Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture, setti svip sinn á starfsemi Landhelgisgæslunnar í haust og stóðu starfsmenn stofnunarinnar sig frábærlega við skipulagningu þess hluta sem fór fram á Íslandi. Minningarathöfn var haldin um borð í varðskipinu Þór í tilefni þess að 75 ár eru liðin frá því að þáttaskil urðu í orrustunni um Atlantshaf en James G. Foggo, aðmíráll, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, vörpuðu blómsveig í hafið til minningar um atburðinn. Samhliða Trident Juncture ákvað Landhelgisgæslan og danski  heraflinn að efna til sameiginlegrar leitar- og björgunaræfingar á Faxaflóa sem þótti heppnast einstaklega vel.

Æft með Dönum

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, fór tvisvar á árinu út fyrir landsteinana í þeim tilgangi að sinna landamæraeftirliti fyrir Frontex.  Í byrjun október fór vélin til Malaga á Spáni og óhætt er að segja á áhöfn vélarinnar hafi haft í nógu að snúast. Á þeim tveimur mánuðum sem vélin var við eftirlit fann hún 2900 flóttamenn. Flugvélin vakti athygli á flugvellinum á Malaga en hún var fest á filmu af áhugamanni um flugvélar.

TF-SIF á Malaga

Það vakti landsathygli að rifbeinsbrotinn sigmaður Landhelgisgæslunnar, Guðmundur Ragnar Magnússon, bjargaði 15 skipverjum flutningaskipsins Fjordvik sem strandaði við hafnargarðinn í Helguvík í byrjun Nóvember. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út en meðan á björgunaraðgerðum stóð lamdist skipið við stórgrýttan hafnargarðinn. Bæði varðskipinu voru svo til taks ef á þyrfti að halda næstu daga eftir atburðinn. Starfsmönnum Landhelgisgæslunnar á vettvangi var sérstaklega þakkað fyrir fagmannlega ráðgjöf og yfirlit vegna aðgerða alþjóðlega björgunarfyrirtækisins Ardent sem sá um að koma skipinu af strandstað.

15 bjargað við erfiðar aðstæður

Köfunarnámskeiði Landhelgisgæslunnar, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og ríkislögreglustjóra lauk í lok nóvember með útskrift ellefu nemenda. Þrír þeirra eru starfsmenn Landhelgisgæslunnar en um er að ræða eina allra erfiðustu þrekraun sem starfsmenn stofnunarinnar gangast undir. Því er um mikið afrek að ræða og með útskriftinni í gær var langþráður draumur margra að rætast.

Köfunarnámskeið

Coastguard-arcticforumStarfsmenn Landhelgisgæslunnar unnu ötullega að norðurslóðaverkefnum á árinu enda ekki að ástæðulausu, stofnunin tekur við formennsku í Arctic Coast Guard Forum á næsta ári. Mikið mun mæða á fjölmörgum starfsmönnum vegna þess.

Screenshot-2018-10-31-at-15.33.38Smíði á nýjum léttbát fyrir Tý hefur gengið vel en áhafnir komu að hönnun bátsins. Bátasmiðjan Rafnar sér um smíðina en áætlað er að báturinn verði afhentur Landhelgisgæslunni í lok mánaðar.

Img_7286Á árinu var unnið að því með markvissum hætti að gera varðskipið Tý eins sambærilegt Þór og kostur er. Símakerfi, sjálfstýring og sjónvarpskerfi skipsins voru uppfærð svo fátt eitt sé nefnt.

 

 

IMG_0124_1545066815342Þyrlurnar TF-EIR og TF-GRO koma í þjónustu Landhelgisgæslunnar á nýju ári. Nöfnin hafa sterka skírskotun í norræna goðafræði eins tíðkast hefur frá upphafi flugrekstrar stofnunarinnar. Eir var til að mynda gyðja lækninga og þess má líka geta að fyrsta þyrla Gæslunnar fékk nafnið TF-Eir en hún kom til landsins árið 1965. 

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa borið nafið TF-EIR og þrjár TF-GRO. Nýju þyrlurnar eru af gerðinni Super Puma H225. Fyrri þyrlan kemur til landsins í lok janúar en sú seinni í apríl.

Í síðustu viku ársins voru þrjú loftför Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna alvarlegs umferðarslyss við brúna við Núpsvötn. Þyrlurnar TF-GNA og TF-SYN fluttu fjóra slasaða á Landspítalann í Reykjavík og TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, var fengin til að aðstoða við fjarskipti og finna bestu flugleið fyrir þyrlurnar.

Landhelgisgæslan óskar Landsmönnum nær og fjær gleðilegs nýs árs.