Annáll Landhelgisgæslu Íslands 2024

Viðburðaríkt ár að baki.

  • Seradgerdasveit-LHGTh

31.12.2024 Kl: 9:46

Þótt ótrúlegt megi virðast er árið 2024 á enda og árið 2025 handan við hornið. Árið sem nú er að líða hefur verið tíðindaríkt í starfi Landhelgisgæslunnar og verkefnin sem starfsfólk hefur fengist við verið bæði fjölbreytt og og krefjandi.

Enn eitt árið var met sett í fjölda þyrluútkalla sem hafa farið ört vaxandi á liðnum árum.  Nákvæmur fjöldi útkalla liggur fyrir snemma á nýju ári. 

Janúar

Sol-a-lofti

Freyja-solris

Varðskip Landhelgisgæslunnar sinntu öflugu eftirliti á hafsvæðinu umhverfis landið á árinu sem er að líða. Í byrjun janúar blasti glæsilegt útsýni við áhöfninni á varðskipinu Freyju á norðausturhorninu þegar birta tók af degi. Guðmundur St. Valdimarsson tók þessar fallegu myndir. 


Allar þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar verða að gangast með reglulegu millibili undir svokallaða HUET-þjálfun og á það jafnt við um flugmenn, sigmenn, spilmenn og lækna. Í upphafi ársins fór slík þjálfun fram í Rotterdam í Hollandi þar sem meðfylgjandi myndband var tekið.  

https://youtu.be/zENIll6E9F4

Torbjorn-Kjosvold

Flugsveit frá norska flughernum annaðist loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland í upphafi ársins. Þetta var í áttunda sinn sem Norðmenn lögðu verkefninu lið. Flugsveitin kom til landsins með fjórar F-35 orrustuþotur, um 120 liðsmenn og hafði aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þar dvöldu einnig flugsveitir aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins sem sinntu kafbátaeftirliti úti fyrir ströndum Íslands á árinu.

_90A8538-Enhanced-NR

Landhelgisgæslan var í viðbragðsstöðu vegna jarðhræringanna norður af Grindavík í upphafi ársins. Óskað var eftir því að áhöfnin á varðskipinu Þór héldi í átt til Grindavíkur þegar jarðhræringar hófust um miðjan mánuðinn. Dróni varðskipsins var meðal annars notaður til að meta aðstæður í bænum og í nágrenni hans og kom upplýsingum til samhæfingarmiðstöðvar almannavarna í Skógarhlíð.

IMG_5107

Þá fór áhöfnin á léttbát varðskipsins til að opna fyrir brunahana við smábátahöfnina og flutti mannskap sem sendur var með þyrlu um borð í varðskipið svo hægt væri að flytja hafnarbát bæjarins til Þorlákshafnar. Áhöfnin á TF-GNA flutti mennina út í varðskip.

Þá flutti þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og starfsfólk Landsnets rafmagnslínu yfir hraunbreiðuna með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Verkefnið gekk sérlega vel og í kjölfarið tók við tengivinna við hjá HS Veitum og Landsneti.

_DSF8321-CopyLjósmynd: Golli.


422538749_727863942651096_3071951086654894509_n

Sex ára dóttir eins þyrluflugstjórans okkar stóð frammi fyrir erfiðu vali í lok janúar. Í skólanum var bangsastund og hún þurfti að velja á milli bangsanna Manna og Lóu um hvort þeirra fengi að fara með henni. Hún gat ómögulega gert upp á milli þeirra . Úr varð að Manni fór með henni í skólann og Lóa með pabba hennar í þyrluna. Lóa aðstoðaði við eftirlit um landið og miðin og fékk að fylgjast með ansi viðburðaríkum degi um borð í þyrlunni.

Febrúar

Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0141

Í upphafi febrúar annaðist þyrlusveit Landhelgisgæslunnar krefjandi útkall á haf út í slæmu veðri. Óskað var eftir aðstoð þyrlusveitarinnar vegna veikinda sem upp komu í togara sem var á veiðum um 20 sjómílur út af Ísafjarðardjúpi. Vegna veðurs þurfti áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, að beita töluverðri útsjónarsemi í fluginu. Tekið var á loft frá Reykjavíkurflugvelli og varð að fljúga með fram ströndu til móts við skipið. Þar voru aðstæður erfiðar sökum vinds og éljagangs en þrátt fyrir það gekk vel gekk að hífa skipverjann um borð í þyrluna. Áhöfnin fór að því búnu inn á Ísafjörð til eldsneytistöku og þaðan var maðurinn fluttur til Reykjavíkur þar sem hann komst undir læknishendur.

Útkall sem þetta krefst mikils skipulags áhafnarinnar og varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sem miðla upplýsingum um aðstæður og halda utan um ýmis önnur mál svo flugið gangi sem best fyrir sig.

Jon-Arni-Arnason-og-Bjorgolfur-IngasonAðalvarðstjóraskipti urðu í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í upphafi árs. Jón Árni Árnason varð nýr aðalvarðstjóri og tók við stöðunni af Björgólfi Ingasyni sem hverfur til annarra starfa innan Landhelgisgæslunnar.

20240208_072110

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar flaug með vísindamenn að gosstöðvunum norðaust­an við Sýl­ing­ar­fell til að meta umfang gossins sem hófst þar þann 8. febrúar. Meðfylgjandi myndir voru teknar um borð í TF-GNA, þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Holmar-Lara-Hreggvid-Johann-Onni-Magnus-Orn

Áhöfnin á eftirlitsflugvélinni TF-SIF hélt af landi brott um miðjan febrúar og var við gæslu á ytri landamærum Evrópu á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópu. Vélin var gerð út frá Malaga á Spáni að þessu sinni. TF-SIF, fór að úthaldinu loknu í umfangsmikla skoðun á Möltu þar sem í ljós kom tæring í hreyflum vélarinnar. Viðhaldið á TF-SIF var af þeim sökum tímafrekara en upphaflega var gert ráð fyrir og vélinni var flogið töluvert minna en vonir stóðu til. Vélin kom aftur til landsins í desember og var vel nýtt til eftirlits eftir að heim var komið.

Traust-2024

Landhelgisgæslan nýtur mests trausts almennings samkvæmt niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup sem birtust í febrúar. Ríflega níu af hverjum níu bera mikið traust til Landhelgisgæslu Íslands. Þetta var fjórtánda árið í röð sem Landhelgisgæslan mældist með mest traust íslenskra stofnana og fyrir það erum við afar stolt og þakklát.
Mars
LIF-a-palli

Björgunarþyrlan TF-LIF yfirgaf Reykjavíkurflugvöll í síðasta sinn í mars. Þyrlunni var ekið norður á Akureyri og er nú til sýnis á Flugsafninu. Þyrlan var seld árið 2023 en kaupandinn eftirlét öldungaráði Landhelgisgæslunnar og Flugsafninu skrokk þyrlunnar svo hægt væri að varðveita þessa sögufrægu björgunarþyrlu. Koma Lífar til Landsins árið 1995 olli straumhvörfum í þyrlurekstri Landhelgisgæslunnar.

IMG_5252

Ísland annaðist þjálfun úkraínskra sjóliðsforingjaefna um borð í varðskipum Landhelgisgæslunnar á árinu. Sjóliðsforingjaefnin voru borð í varðskipum Gæslunnar þar sem þau fengu verklega þjálfun í siglingafræði, eftirliti og aðgerðum á hafi, m.a. leit og björgun.

Verkefnið er hluti af þjálfunarverkefni Atlantshafsbandalagsins og sá Landhelgisgæsla Íslands um framkvæmdina í samstarfi við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

,,Utanríkisráðuneytið leitaði til Landhelgisgæslunnar varðandi þjálfun sjóliðsforingjaefnanna og við tókum þessu mikilvæga verkefni fagnandi. Hingað til lands komu fimm ungir menn frá Úkraínu sem voru hluti af áhöfn varðskipsins Þórs í síðasta úthaldi. Þeir hlutu margvíslega þjálfun um borð og fengu að kynnast íslensku sjólagi og aðstæðum." sagði Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.

DSCF9486

Georg Kr. Lárusson, sett hinn árlega Skrúfudag Tækniskólans sem haldinn var hátíðlegur um helgina.

Georg sagði stofnun Stýrimannaskólans árið 1891 vera eitt af stóru framfaraskrefum í sögu þjóðarinnar. Hann sagði sögu menntunar sjófarenda og sögu Landhelgisgæslunnar vera samofna.

Apríl

Eftirlit-3

Hjá Landhelgisgæslunni eru  tvær varðskipsáhafnir sem starfa um borð á varðskipunum Þór og Freyju. Á vormánuðum gekkst varðskipið Freyja undir smávægilegt viðhald og því var áhöfnin á Freyju við störf um borð í varðskipinu Þór.

Received_2133746883673139

Varðskipið Freyja kom með hollenska flutningaskipið sem varð vélarvana úti fyrir Riftanga í togi til Húsavíkur um miðjan apríl. Vel gekk að koma taug á milli skipanna og ferðin til Húsavíkur sóttist vel.


Image00003_1714405148573

Landhelgisgæsla Íslands hélt í lok apríl hinn árlega leitar- og björgunarfund vegna leitar og björgunaratvika sjófarenda og loftfara á árinu 2023. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, setti fundinn og nýtti tækifærið og þakkaði viðbragðsaðilum fyrir sérlega gott og árangursríkt samstarf vegna leitar og björgunar á sjó og í lofti á árinu 2023.

Maí

Image00004_1714647605924

Mikið var um að vera í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þann 2. maí, á fyrsta degi strandveiða. Klukkan tíu þann dag voru á níunda hundrað skip og bátar í fjareftirliti hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út vegna dráttarbátsins Grettis sterka sem lenti í vanda vegna bilunar, suðaustur af Vík, í byrjun maí. Fimm voru um borð í dráttarbátnum.

Image00009_1715002931273

Áhöfn Grettis sterka hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í kjölfar þess að báturinn tók inn á sig sjó vegna bilunar í byrjun maí. TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, og björgunarskipið Þór, frá Vestmannaeyjum, héldu til móts við dráttarbátinn sem tók stefnuna til Eyja þegar bilunarinnar varð vart. Þá var dráttarbáturinn Lóðsinn frá Vestmannaeyjum einnig beðinn um að halda á vettvang. Vel gekk að dæla sjó úr Gretti sem var kominn til hafnar í Vestmannaeyjum næsta morgun í fylgd Lóðsins.

5D4B7829

Viðbragðsaðilar landsins tóku þátt í fjölmennri flugslysaæfingu sem haldin var á Höfn í Hornafirði. Alls tóku um 140 manns þátt í æfingunni, þar af 20 leikarar. Æfingin gekk afar vel og reyndi á samvinnu og samhæfingu þeirra sem að verkefninu komu.

Varðskip Landhelgisgæslunnar, Þór og Freyja, hafa öfluga dráttargetu til að geta brugðist við ef skip, stór sem smá, lenda í vandræðum á hafsvæðinu umhverfis landið. Dráttarvírinn leikur þar lykilhlutverk og áhöfn varðskipanna þurfa að tryggja að hann sé í góðu standi ef á þarf að halda. Í maí kom í ljós smávægileg skemmd á dráttarvír varðskipsins Þórs og var brugðið á það ráð að skipta um vírinn eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

https://youtu.be/fHXsfC7EBSU

Image00016_1715699455378

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist útkall um borð í skemmtiferðaskip sem statt var við austurströnd Grænlands vegna bráðra veikinda eins farþegans um borð. 

Image00006_1715832871822

Mannbjörg varð þegar strandveiðibátur sökk norðvestur af Garðskaga um miðjan mánuðinn. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá skipstjóra annars strandveiðibáts klukkan 02:42 þann 16. maí þess efnis að bátur í grenndinni væri að sökkva um 6 sjómílur norðvestur af Garðskagavita. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út á hæsta forgangi ásamt sjóbjörgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum. Þá voru nálæg fiskiskip og bátar beðin um að halda á staðinn.

Skömmu eftir að neyðarkallið barst Landhelgisgæslunni hafði tilkynnandi aftur samband og tjáði varðstjórum í stjórnstöð að hann væri búinn að bjarga manninum úr sjónum en bátsverjanum tókst að komast í björgunargalla áður en bátur hans sökk. Hluti áhafnar erlends flutningaskips var síðar handtekin í Vestmannaeyjum, grunuð um að hafa yfirgefið mann í sjávarháska.

20240514_143418

Sjómælinga- og siglingaöryggisdeild LHG hélt fund vinnuhóps norrænna sjókortagerðarsérfræðinga, Nordic Chart Production Expert Group (NCPEG). Vinnuhópurinn er hluti af starfi Nordic Hydrographic Commission (NHC) sem er svæðisnefnd Alþjóða sjómælingastofnunarinnar (IHO) á Norðurlöndunum. Staðfundir sem þessi eru haldnir annað hvert ár og eru afar mikilvægur samstarfsgrundvöllur fyrir sjókortagerðarfólk, ekki síst fyrir minni sjómælingastofnanir eins þá íslensku.

Júní - ágúst

IMG_5654

Áhöfnin á varðskipinu Þór gerði ráð fyrir að verja sjómannadeginum á Dalvík en störf Landhelgisgæslunnar eru þannig að áætlanir breytast hratt.

Í upphafi júnímánaðar óskaði súrálsskip sem statt var í Reyðarfirði eftir aðstoð vegna vélarbilunar. Flutningaskipið var við akkeri skammt frá höfninni en vegna versnandi veðurs lá á að koma skipinu að bryggju. Enginn dráttarbátur, sem var nægjanlega öflugur, var tiltækur í nágrenninu til að koma skipinu að bryggju og af þeim sökum var ákaflega mikilvægt að varðskipið yrði komið til Reyðarfjarðar í tæka tíð. Flutningaskipið var um 36 þúsund tonn og 20 voru í áhöfn þess. Dráttartaug var komið á milli skipanna og stuttu síðar voru skipin komin að bryggju. Dráttarbáturinn Vöttur tók einnig þátt í aðgerðinni sem gekk sérlega vel. Þegar verkefninu var lokið hélt varðskipið Þór sinni árlegu vitaferð áfram.

Sm_Vitahringur_dagur_2-14

Áhöfnin á varðskipinu Þór fór í hinn árlega vitatúr í samstarfi við starfsmenn Vegagerðarinnar. Áratugum saman hafa varðskip Landhelgisgæslunnar siglt meðfram ströndum landsins vegna eftirlits með ljósvitum, skerjavitum, sjómerkjum og ljósduflum sem ekki er hægt að komast í frá landi.

Sm_Vitahringur_dagur_1-60

Áhöfnin á varðskipinu Þór og starfsmenn Vegagerðarinnar sjá um eftirlit og viðhald á vitum og öðrum sjómerkjum í ferðinni en með í ferðinni voru einnig starfsmenn aðgerðasviðs. Meðal verkefna í vitatúrunum er að yfirfara rafgeyma og sólarspegla auk þess að endurnýja perur auk annars tilfallandi viðhalds.

Mynd-nr-5

Frá maímánuði var sjómælingabáturinn Baldur við dýptarmælingar með fjölgeislamæli í vestanverðum Húnaflóa en fyrir liggur að endurnýja sjókort af þessu svæði með það að leiðarljósi að auka öryggi sjófarenda enn frekar.

Kerfisbundnar fjölgeisladýptarmælingar á svæðinu hófust árið 2023 og til að byrja með var lögð áhersla á hafsvæðið frá Horni að Gjögri og út fyrir Óðinsboða. Mikið er um grunn og boða á svæðinu og eru mælingar því bæði erfiðar og varasamar og reynir talsvert á áhöfn Baldurs við slíkar aðstæður. Vegna þessa er svæðið afar seinlegt til mælinga og er talið að um 3-4 sumur taki að mæla þetta svæði.

Adm3

Aðalstarfsmannastjóri (e. Chief of Staff) í herstjórnarmiðstöð Atlantshafsbandalagsins í Evrópu, þýski aðmírálinn Joachim Rühle, heimsótti Ísland í upphafi júnímánaðar. Rühle var hér á landi í boði utanríkisráðuneytisins, m.a. til að ræða gistiríkjastuðning íslenskra stjórnvalda gagnvart flugsveitum og skipaflota Atlantshafsbandalagsins ásamt því að kynna sér varnartengda innviði, tækjabúnað og mannauð sem er til staðar á Íslandi.

Í heimsókninni kynnti hann sér meðal annars starfsemi öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli, varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og landhelgihluta Landhelgisgæslu Íslands.

F-35-RAF

Bresk flugsveit annaðist loftrýmisgæslu Atlanthafsbandalagsins í ágúst. Flugsveitin samanstóð af fjórum F-35 orrustuþotum og um 180 liðsmönnum. Sveitin tók  þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum stjórnstöðva Atlantshafsbandalagsins í Uedem í Þýskalandi og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Oli-Toll-a-kontornum-a-Seljaveginum-1

Ólafur Þór Thorlacius f.v. deildarstjóri hjá sjómælingasviði Landhelgisgæslu Íslands lést þann 27. júlí síðastliðinn. Ólafur var fæddur í Reykjavík 21.10. 1936 og ólst þar upp. Hann fór 15 ára fyrst til sjós. Það varð þó ekki ævistarf hans heldur sjókortagerð, sem óneitanlega tengist sjómennsku.

Ólafur Thorlacius, eða Óli Toll eins og hann var kallaður, var einn af frumherjunum sem tókust á við það verkefni að koma á fót íslenskri sjókortagerð þegar Danir, sem séð höfðu um sjókortagerðina, afhentu Íslendingum verkefnið á sjötta áratug síðustu aldar.

1-Nordur-Vikingur12631

Varnaræfingin Norður-Víkingur hófst í ágúst. Áhöfnin á varðskipinu Þór, sérsveit ríkislögreglustjóra, séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar og liðsmenn bandaríska sjóhersins æfðu meðal annars aðgerðir á sjó, þar á meðal uppgöngu í skip og eftirför. Alls tóku um 1.200 manns þátt í æfingunni, þar af um 200 Íslendingar frá varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Landhelgisgæslunni, Ríkislögreglustjóra, Almannavörnum og öðrum stofnunum.

September

Nordur-Vikingur12764

Eitt af verkefnum séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar er að eyða sprengjum sem finnast á landi og á hafinu umhverfis landið. Vegna hernaðarstarfsemi hér á landi á árum áður finnast djúpsprengjur og fallbyssukúlur enn í sjó og á landi, en fjöldi slíkra hluta sem komið hafa til kasta séraðgerðasveitarinnar í gegnum tíðina skiptir þúsundum. Virk sprengja fannst á Vogaheiði en svæðið var þekkt skotæfingasvæði bandaríska hersins á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar fór ásamt bandarískum hermönnum sem dvöldu hér á landi vegna varnaræfingarinnar Norður Víkingur og leituðu svæðið í kjölfarið en einungis ein óvirk sprengja fannst.

Borgaris_1726152840791

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fengu fjölmargar tilkynningar um borgarísjaka á Vestfjarðarmiðum og á Húnaflóa í september. Siglingaviðvaranir voru sendar sjófarendum vegna ísjakanna.

Iceair-og-LHG

Icelandair og Landhelgisgæsla Íslands skrifuðu undir samning um samstarf í þjálfunarmálum í september. Þótt flugrekstur þessara aðila sé í eðli sínu ólíkur eru fjölmargir sameiginlegir snertifletir sem snúa að reglubundinni þjálfun áhafna þar sem öryggi er ávallt í fyrsta sæti. Þjálfun áhafna skipar mikilvægan sess hjá flugrekendum og er því afar dýrmætt að hafa sameiginlegan vettvang til þess að skiptast á skoðunum og hugmyndum um hvernig sú þjálfun getur skilað sem mestri þekkingu í eins fjölbreyttu umhverfi og flug er.

Seradgerdasveit-LHGTh

Sprengjusérfræðingar frá 17 löndum æfðu viðbrögð við ýmsum ógnum á hinni árlegu Northern Challenge sem fram fór í september og október. Um alþjóðlega æfingu Atlantshafsbandalagsins var að ræða sem séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar annaðist og skipulagði. Alls tóku 320 þátttakendur frá Íslandi, Belgíu, Kanada, Tékklandi, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Írlandi, Litáen, Nýja Sjálandi, Svíþjóð, Noregi, Austurríki, Póllandi, Hollandi og Bretlandi þátt í æfingunni. 

Október

NCGC-i-Vestmannaeyjum

Árlegur fundur forstjóra strandgæslna í norrænu löndunum var haldinn í Vestmannaeyjum. Saga Landhelgisgæslunnar tengist Vestmannaeyjum órjúfanlegum böndum og því þótti vel til fundið að halda fundinn í Eyjum að þessu sinni.

IMG_5826

Áhöfnin á varðskipinu Freyju fylgdi bandaríska kafbátnum, USS Indiana, um landhelgina í byrjun október. Kafbáturinn var hingað kominn í stutta þjónustuheimsókn og áhafnarskipti. Áhafnarskiptin fóru fram í Stakksfirði.


Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sinnti fjölmörgum þyrluútköllum á árinu. Eitt þeirra var í október þegar sveitin var kölluð út vegna slyss sem varð um borð í fiskiskipi í utanverðum Húnaflóa. Þar hafði skipverji slasaðist á fæti og var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til að flytja hann á Landspítalann. Meðfylgjandi myndband má sjá frá umræddu útkalli.

https://youtu.be/y2jPmYTgBWo

Strand-vid-Sugandafjord

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í lok október vegna fiskibáts sem strandaði við utanverðan Súgandafjörð. Tveir voru um borð í bátnum og aðstæður á strandstað voru ágætar, hægur vindur og gott sjólag. Mennirnir komust í land með aðstoð björgunarsveitarfólks og voru svo hífðir um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti þá á Suðureyri. 

Nóvember

Áhöfnin á varðskipinu Freyju annast eftirlit á síldarmiðum austur af landinu í nóvember. Þar voru nokkur færeysk síldveiðiskip að veiðum. Lögum samkvæmt sinnir Landhelgisgæslan öflugu eftirliti með erlendum fiskiskipum innan efnahagslögsögunnar í samstarfi við Fiskistofu og matvælaráðuneytið. Eftirlitið fer þannig fram að áhöfnin á varðskipinu fer um borð í skipin og kannar aflasamsetningu og framkvæmir tegundagreiningu á aflanum.

Meðfylgjandi myndband gefur fróðlega innsýn inn í hvernig eftirlit sem þetta fer fram hjá áhöfnum Landhelgisgæslunnar.

https://youtu.be/RKmexotLyyc

Benni-Landinn

Á haustmánuðum kom út bókin Til taks. Í bókinni er sagt frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar.

Tveir af höfundum bókarinnar, eru þyrluflugstjórarnir fyrrverandi, Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson sem hafa komið að mörgum af eftirminnilegustu björgunarafrekum Landhelgisgæslunnar. Þriðji í hópi höfunda er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrrum lögreglumaður.

Snjobraedsla-flughlad

Þau sem óku framhjá flugskýli Landhelgisgæslunnar í nóvember tóku eflaust eftir fjölmörgum vinnuvélum og starfsfólki sem vann að kappi við að koma nýrri snjóbræðslu fyrir á flughlaðinu. Um mikið öryggisatriði er að ræða, sérstaklega ef ræsa þarf þyrlur Landhelgisgæslunnar við flugskýlin í frosti og hálku. Snjóbræðslan sem fyrir var á planinu var óvirk og því þurfti að koma nýrri snjóbræðslu fyrir.

IMG_5997

Áhöfnin á varðskipinu Þór fjarlægði hvalhræ sem var á reki í miðjum Hvalfirði í lok nóvember. Siglt var með hræið djúpt út af Snæfellsnesi þar sem því var sökkt. 


20241127_084934

Landhelgisgæslan gaf út ritin Sjávarfallatöflur 2025 og Sjávarfallaalmanak 2025 sem fáanleg eru hjá söluaðilum sjókorta. Á þessu ári eru 70 ár liðin frá því að Sjómælingar Íslands, sem nú er sjómælinga- og siglingaöryggisdeild Landhelgisgæslunnar, gaf fyrst út töflur yfir sjávarföll í Reykjavík og flóðbið annarra staða við Ísland.

Desember

Thor-hifdur-Freyja

Gamli Þór, björgunarskip Slysavarnafélags Landsbjargar, var flutt með varðskipinu Freyju frá Vestmannaeyjum vestur á firði þar sem skipið kemur til með að öðlast nýtt líf í þjónustu björgunarsveitarinnar Kofra á Súðavík. Þór var hífður um borð í Freyju við Binnabryggju í Eyjum og haldið með skipið á Ísafjörð. Vel fór um björgunarskipið við bakborðs lunningu á aðalþilfari varðskipsins.

Þegar komið var til Ísafjarðar tók björgunarsveitarfólk á vegum Kofra við skipinu sem híft var frá Freyju með gámalyftara og sjósett í framhaldinu. Vel gekk að koma Þór frá borði. Nýir eigendur sigldu Þór frá Ísafirði til Súðavíkur þar sem hann verður til taks.

1_1734382102118

Áhöfninni á varðskipinu Þór tókst nú síðdegis að bjarga hval sem hafði fest sig í legufæri norður af Viðey um miðjan mánuðinn. Áhöfnin notaðist við belg, tóg og kröku og reyndi að slæða upp spottann sem hvalurinn var flæktur í. Á sjötta tímanum náðist loks að skera á tógið og dýrið synti í burtu frjálst ferða sinna. Hvalurinn virtist frelsinu feginn eftir raunir næturinnar og dagsins.

https://youtu.be/xNDZvrZpNic

IMG_6740_1734949610434

Áhöfnin á varðskipinu Þór kom saman á vetrarsólstöðum og hélt sín árlegu litlu jól og jólabingó.

Lidsforingi

Landhelgisgæsla Íslands tekur þátt í fjölbreyttu alþjóðlegu samstarfi. Eitt þessara samstarfsverkefna felur í sér að starfsfólki strandgæslna gefst tækifæri til að fræðast um verkefni sambærilegra stofnanna í öðrum Evrópulöndum (e. Coast Cuard Exhange Programme). Markmið verkefnisins er m.a. að auka samstarf strandgæslna, efla þekkingu starfsfólks, veita því tækifæri til að kynnast starfsháttum systurstofnanna og kynna sér tækjabúnað þeirra.

Hluti af þessu verkefni var heimsókn liðsforingjans Vito de Carne frá ítölsku strandgæslunni. Hann dvaldi hér á landi í desember og fór m.a. í eina eftirlitsferð með varðskipinu Freyju. Þar fékk hann tækifæri til að kynna sér aðstæður um borð í íslensku varðskipi í vetrartíð. Þá kynnti Vito de Carne sér einnig aðra þætti starfsemi Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð og fékk fræðslu um fyrirkomulag fiskveiði- og mengunareftirlits.