Annasamur dagur hjá Landhelgisgæslunni
TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, var fjórum sinnum kölluð út í dag.
27.7.2019 Kl: 18:48
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, varðskipsmenn á Þór og þyrlusveit LHG hafa haft í nógu að snúast það sem af er degi. Þyrlusveitin hefur farið í fjögur útköll og varðskipið Þór var kallað út vegna ferðamanna í vanda í Fljótavík.
Á níunda tímanum í morgun voru björgunarsveitir á Vestfjörðum ræstar út vegna ferðamanna sem óskað höfðu eftir aðstoð og voru staddir í Fljótavík. Ákveðið var að varðskipið Þór myndi ferja björgunarsveitarmenn á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Bolungarvík að Fljótavík. Auk þess voru tveir stýrimenn varðskipsins sendir í land til að hlúa að öðrum ferðamanninum.
Klukkan 11:33 var haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskað eftir þyrlu vegna vélhjólaslyss í Ólafsvík. Áhöfnin á TF-GRO var á sama tíma á leið á æfingu og brást skjótt við. Þyrlan tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli tíu mínútum síðar.
Þegar þyrlan var á leið til baka úr vélhjólaslysinu á Ólafsvík barst aftur ósk um aðstoð þyrlu. Nú vegna hjartveiks manns við Bláfell, austan Langjökuls. Þyrlan lenti við Landspítalann í Fossvogi með sjúklinginn úr vélhjólaslysinu klukkan 12:58 og fór rakleiðis aftur á Reykjavíkurflugvöll til að taka eldsneyti og að því búnu var aftur tekið á loft. Ákveðið var að þyrlan myndi mæta sjúkrabíl með hjartveika manninum við Svínavatn. Þaðan var flogið með hann áleiðis til Reykjavíkur þar sem TF-GRO lenti klukkan 14:00.
Þremur korterum síðar, eða klukkan 14:44, fór þyrlan í þriðja útkall dagsins eftir að óskað var eftir aðstoð vegna flugslyss við Haukadalsflugvöll. Skömmu eftir að TF-GRO tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli var beiðnin afturkölluð og lenti þyrlan aftur á Reykjavíkurflugvelli skömmu eftir flugtak.
Áhöfnin á TF-GRO hélt svo í fjórða útkallið á fimmta tímanum. Nú til að sækja ferðamanninn í Fljótavík sem þurfti að komast undir læknishendur. Þyrlan tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 16:17 og er þegar þetta er skrifað, klukkan 18:30, á Ísafirði.
Eins og sjá má á þessari samantekt dagsins hefur dagurinn hjá Landhelgisgæslunni verið afar annasamur.
Mikið annríki var hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í dag.