Annasamur dagur hjá Landhelgisgæslunni

Þrjú þyrluútköll

  • 159732117_183635160138889_5290201487306220450_n

11.3.2021 Kl: 21:31

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, áhöfnin á varðskipinu Þór og varðstjórar í stjórnstöð hafa haft í nógu að snúast í dag enda hafa þyrlurnar þrisvar sinnum verið kallaðar út og Þór einu sinni.
Á áttunda tímanum í morgun var áhöfnin á TF-EIR kölluð út vegna sjómanns sem slasaðist um borð í fiskiskipi sem statt var suður af Krísuvíkurbjargi. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti manninn og flutti á Landspítalann í Fossvogi.
Þegar þyrlan var nýlent í Fossvogi var aftur óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar. Nú vegna veikinda á Blönduósi. Aðstæður voru krefjandi í fluginu enda veðrið slæmt og skyggni lítið. Ákveðið var að lenda þyrlunni á flugvellinum á Blönduósi og var sjúklingnum komið undir læknishendur í Reykjavík.
Á þriðja tímanum í dag var áhöfnin á varðskipinu Þór kölluð út vegna Breiðafjarðarferjunnar Baldurs sem varð vélarvana á Breiðafirði. Ákveðið var að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar á Stykkishólm til öryggis ef á þyrfti að halda.
Þyrlusveitin bauðst til að koma farþegum Baldurs í land undir kvöld eftir að taug hafði verið komið á milli ferjunnar og rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar en farþegarnir ákváðu að halda kyrru fyrir í ferjunni. Varðskipið Þór verður komið innan skamms á svæðið og dráttarbátur Faxaflóahafna mun taka Baldur í tog til hafnar í Stykkishólmi þegar aðstæður leyfa.
Dagurinn hefur því verið nokkuð annasamur eins og samantektin ber með sér.
20210311_083831Um borð í TF-EIR. Slasaður sjómaður var sóttur um borð í fiskiskip sem statt var suður af Krísuvíkurbjargi. 
159732117_183635160138889_5290201487306220450_nTF-EIR var aftur kölluð út á tíunda tímanum vegna veikinda á Blönduósi. Mynd: Höskuldur B. Erlingsson. 
20210311_122055Krefjandi aðstæður og mikil ísing.
20210311_120244Veður og skyggni hafa gert útköll dagsins afar krefjandi. 
Image00006_1615498297719Árni Friðriksson með Breiðafjarðarferjuna Baldur í togi á Breiðafirði í kvöld. 
Einar-Valsson_1615478224685Einar Valsson, skipherra á Þór, í Helguvík á þriðja tímanum í dag. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson.