Annasamur dagur
Varðstjórar í stjórnstöð og þyrlusveit haft í nógu að snúast.
5.6.2024 Kl: 12:55
Dagurinn hefur verið annasamur hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sem hefur þrívegis verið kölluð út, það sem af er degi.
Í gærkvöld hafði skipstjóri á bresku rannsóknarskipi samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna veikinda um borð. Skipið var þá statt um 300 sjómílur suður af landinu. Skipstjóranum var bent á að halda í átt að landi og að þyrla yrði kölluð út þegar skipið væri komið nær Íslandi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli laust eftir klukkan 6 í morgun. Flogið var í 6000 feta hæð og þegar þyrlan nálgaðist skipið fór þyrlusveitin yfir það hvernig staðið yrði að hífingum og veitti leiðbeiningar um stjórntök og undirbúning. Þyrlan kom að skipinu þegar það var um 115 sjómílur suður af landinu. Vel gekk að hífa sjúklinginn um borð og í kjölfarið var honum komið undir læknishendur í Reykjavík.
Eins og alltaf þegar flogið er langt á haf út er önnur þyrla og áhöfn í viðbragðsstöðu. Sú þyrla var kölluð út til að vera í viðbragðsstöðu í Vestmannaeyjum, bæði vegna sjúkraflugsins og vegna skútu sem var í vanda um 60 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum. Björgunarskipið Þór, á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, var kallað út til að aðstoða skútuna og taka hana í tog til Eyja. Leki var kominn að skútunni. 12 voru um borð í skútunni og ákveðið var að hafa þyrluna í viðbragðsstöðu í Eyjum til að gæta fyllsta öryggis. Björgunarskipið Þór er nú með skútuna í togi til Vestmannaeyja.
Á tíunda tímanum var áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, kölluð út vegna veikinda á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þyrlusveitin brást hratt við og flutti viðkomandi á Landspítalann í Fossvogi.