Annasöm helgi að baki

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kölluð þrívegis út

  • Gaesavotn

27.6.2022 Kl: 13:03

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sinnti þremur útköllum um helgina. Á föstudagskvöld voru erlendir ferðamenn sóttir í Gæsavatnsskála norðan Vatnajökuls. Annar ferðamannanna hafði fallið í á og var orðinn blautur og hrakinn. Læknirinn í áhöfn þyrlunnar tók annan ferðamanninn á hestbak og bar hann um borð í þyrluna. Ferðamennirnir voru fluttir til Reykjavíkur.

Á laugardaginn sótti áhöfnin á TF-EIR vélsleðamann sem slasaðist á Langjökli. Þyrlan lenti við einn af skálunum á leiðinni upp að Skálpanesi og var vélsleðamaðurinn færður um borð í þyrluna og fluttur á Slysadeild til skoðunar. Þegar þyrlan lenti í Reykjavík var hún aftur kölluð út, nú vegna slyss um borð í frystitogara 90 sjómílur vestur af Bjargtöngum. Áhöfn þyrlunnar hélt rakleiðis vestur og þegar þyrlan nálgaðist togarann var skipstjóri beðin um að slá af og snúa upp í vind á minnsta stjórnhraða. Hinn slasaði var fluttur upp í brú skipsins. Á staðnum var blíðskaparveður og góðar aðstæður til hífinga eins og sést á meðfylgjandi myndbandi.

Sigmaður Landhelgisgæslunnar fór um borð í skipið og athugaði meiðsli þess sem slasaðist og við skoðun var ljóst að betur hafði farið en á horfðist í fyrstu. Maðurinn var hífður um borð í þyrluna og fluttur á Landspítalann í Reykjavík til aðhlynningar.

Slasaður sjómaður sóttur

GaesavotnLæknir þyrlunnar með ferðamanninn á hestbaki.