Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar haft í nógu að snúast

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tvívegis í morgun neyðarkall með stuttu millibili vegna elds um borð í strandveiðibátum.

28.06.2018 Kl: 15:20

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefur haft í nógu að snúast það sem af er degi. Landhelgisgæslunni barst tilkynning laust fyrir klukkan ellefu í morgun um að eldur væri laus í strandveiðibáti sem staddur var á veiðum úti fyrir Patreksfirði. Þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út ásamt björgunarbátum á svæðinu. Að auki voru bátar í grenndinni beðnir um að halda á staðinn. Skömmu síðar var ljóst að engin hætta væri á ferðum og því var aðstoð viðbragðsaðila afturkölluð. Báturinn sigldi fyrir eigin vélarafli til Patreksfjarðar.

Einungis tæpum tuttugu mínútum síðar, klukkan 11:16, barst annað neyðarkall frá strandveiðibáti og aftur var tilkynnt um eld um borð. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði þyrluna út enn á ný. Báturinn var á veiðum nærri Grímsey en sá sem var um borð náði sjálfur að slökkva eldinn. Aðstoð þyrlunnar var afturkölluð og báturinn sigldi fyrir eigin vélarafli til Grímseyjar.

Á öðrum tímanum í dag barst beiðni um aðstoð frá vélarvana báti sem staddur var úti fyrir Seyðisfirði. Björgunarsveitin á Seyðisfirði var kölluð út og er komin á staðinn. Þá barst sömuleiðs tilkynning frá vélarvana báti úti fyrir Patreksfirði skömmu fyrir klukkan 15 í dag. Stjórnstöðin hafði samband við nálæga báta og hélt einn til aðstoðar. Sjósókn er nokkuð góð en um 500 skip og bátar eru nú í fjareftirlitskerfum Landhelgisgæslunnar.