Annríki hjá þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar í gær
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF fór í þrjú útköll í gær. Það fyrsta var snemma morguns er talið var að sést hefði neyðarblys á lofti norður af Rifi. Fór þyrlan á vettvang og flaug hún ströndina frá Ólafsvík og að Hellissandi án þess að verða nokkurs var. Leit var hætt um ellefuleytið og hafði þá fengist staðfest að allar líkur væru taldar á að um stjörnuhrap hefði verið að ræða.
Annað útkall kom svo stundarfjórðung yfir tvö í gærdag er óskað var eftir þyrlu vegna manns á Ólafsvík sem var alvarlega veikur. Fór þyrlan í loftið rétt rúmlega hálfþrjú og var lent við heilsugæsluna á Ólafsvík. Var sjúklingurinn búinn til flutnings og hann svo fluttur með þyrlunni til Reykjavíkur þar sem lent var um fimmtán mínútur yfir fjögur.
Rúmlega níu í gærkvöldi var svo óskað eftir aðstoð þyrlu vegna leitar að manni sem farið hafði inn að Hlíðarfjalli um hádegisbil en ekkert hafði spurst til hans síðan. Var þá vélsleðahópur Slysavarnafélagsins Landsbjargar lagður af stað til leitar. Fannst maðurinn rétt fyrir tíu í gærkvöldi og var hann fluttur til Hvammstanga en þyrla Landhelgisgæslunnar hélt til Reykjavíkur ásamt tveimur leitarmönnum sem höfðu slasast við leitina. Var þeim komið undir læknishendur á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi.