Áramótaannáll LHG 2019
Árið annasamt á öllum vígstöðvum.
Árið 2019 er nánast á enda og
nýtt ár handan við hornið. Árið sem nú er að líða hefur verið býsna tíðindaríkt
í starfi Landhelgisgæslunnar og verkefnin sem starfsfólkið hefur fengist við
verið bæði fjölbreytt og sum hver afar krefjandi.
Miklar annir hafa verið á öllum vígstöðvum og hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar hafa orðið umfangsmiklar breytingar á þyrluflotanum. Flugdeildin hefur farið í 219 útköll á árinu og þar af voru 104 þeirra í hæsta forgangi. Endanlegar tölur um fjölda útkalla verða birtar snemma á nýárinu.
Janúar

Um miðjan mánuðinn þurftu varðstjórar í stjórnstöð
Landhelgisgæslunnar tvívegis að vara skipstjórnarmenn skipa við sem voru á
veiðum nærri sæstrengjum.
Sæstrengir gegna veigamiklu hlutverk í samskiptum þjóðarinnar við helstu útflutningslönd sín og því er afar mikilvægt að sjófarendur fari með gát í námunda við strengina.
Áhafnir varðskipanna Þórs og Hvidbjørnen héldu sameiginlega æfingu í Reykjavík í byrjun árs. Æfð var reykköfun og umönnun slasaðra. Áhafnir beggja skipa eru vel þjálfaðar og nýttu tækifærið þegar danska varðskipið var við bryggju í Reykjavík. Halldór Benóný Nellett, skipherra á Þór, sagði að æfingu lokinni að Danir hafi ætíð reynst Landhelgisgæslunni vel. Meðfylgjandi myndband sýnir frá þessari áhugaverðu æfingu.

Þá fékk Landhelgisgæslan nýjan og glæsilegan léttbát fyrir varðskipið Tý afhentan í janúar. Hann nefnist Flengur og var smíðaður af Rafnari ehf. Flengur sómir sér afar vel um borð í Tý eins og sjá má.

Konurnar hjá Landhelgisgæslunni tóku höndum saman á bóndadaginn og gerðu afar vel við karlkyns vinnufélaga og buðu til veglegar kökuveislu. Þetta mæltist mjög vel fyrir og sló svo sannarlega í gegn. Um samstilltar aðgerðir var að ræða sem fóru fram samtímis í Keflavík, Skógarhlíð og Reykjavíkurflugvelli.

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hafði í nógu að snúast í janúarmánuði. Um miðjan mánuðinn fékk sveitin tilkynningu frá stjórnstöð um að torkennilegur hlutur hafi fundist í íbúðarhúsi á Ísafirði. Sveitin hélt rakleiðis vestur á Ísafjörð og greindi hlutinn. Eftir ítarlega greiningu og röntgenmyndir var það mat sprengjusérfræðinga að um meinlausa riffilhandsprengju sem notuð var til æfinga hafi verið að ræða. Hún var sett í járnkassa og var að lokum eytt við gamla þjóðveginn í Óshlíð.
Febrúar
Guðmundur St. Valdimarsson, bátsmaður á varðskipinu Tý,
sigraði í ljósmyndakeppni sjómanna á Norðurlöndum. Þetta er í annað sinn sem
Guðmundur sigrar í keppninni. Ljósmyndin sem Guðmundur kallar Gömul vísindi og
ný sigraði einnig í ljósmyndakeppni sjómannablaðsins Víkings árið 2018.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fékk kynningu
á stjórnstöð Nato á Keflavíkurflugvelli sem rekin er af Landhelgisgæslunni þegar
hann heimsótti Ísland í febrúar. Georg Kr. Lárusson, forstjóri
Landhelgisgæslunnar, tók á móti honum við komuna til landsins. Jón B. Guðnason
kynnti starfsemina á öryggissvæðinu en með í för voru einnig Guðlaugur Þór
Þórðarson, utanríkisráðherra, og Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Washington.
Jónas Karl Þorvaldsson og Sverrir Harðarson, starfsmenn
séraðgerða- og sprengjueyðingarsviðs Landhelgisgæslunnar, fengu viðurkenningu
og heiðursmerki Atlantshafsbandalagsins fyrir þátttöku í mannúðarverkefni
bandalagsins í Írak. Hlutverk þeirra var að sinna þjálfun innlendra
sprengjusérfræðinga og auka færni þeirra við sprengjueyðingu. Jafnframt var
tilgangur verkefnisins að miðla áralangri þekkingu og reynslu
sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar og stuðla að björgun mannslífa.
Mars
Enn einu sinni mældist Landhelgisgæslan sú stofnun sem nýtur
mests trausts íslensku þjóðarinnar. Rúmlega 89% þeirra sem tóku afstöðu í
könnun Gallup bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar.
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins hófst að nýju í mars með komu ítalska flughersins.
Flugsveitir þriggja þjóða sinntu loftrýmisgæslu fjórum sinnum á árinu 2019, þar
af Ítalir tvívegis.
TF-EIR, ný leiguþyrla Landhelgisgæslunnar, kom til landsins
um miðjan mars. Vélin færir Landhelgisgæsluna fyrr inn í nútímann en ráðgert
var en hún er önnur tveggja véla af gerðinni Airbus H225 sem leysa
leiguþyrlurnar TF-GNA og TF-SYN af hólmi. Seinni leiguþyrlan kemur til landsins
á næstu vikum en hún ber einkennisstafina TF-GRO. Sigurður Heiðar Wiium,
yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði við það tilefni að nýju leiguþyrlurnar væru örlítið
þyngri, tæknilegri, stærri, langdrægari, hraðfleygari og öflugri en þær þyrlur
sem Landhelgisgæslan hefur notað undanfarin ár. Norðmennirnir Steinar Haugen og
Frode Moi flugu með TF-EIR frá Noregi ásamt Sigurjóni Sigurgeirssyni,
yfirflugvirkja hjá Landhelgisgæslunni. Þyrlan fór í sitt fyrsta útkall í júní.
TF-LIF staðsetti átta manns í þremur jeppabifreiðum með GSM-leitarbúnaði í mars. GSM leitarkerfi LHG er búnaður um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar sem getur miðað út staðsetningu GSM farsíma með nokkurri nákvæmni. Aðeins þarf að vera kveikt á símanum. Ekki er nauðsynlegt að hann sé í símasambandi til að hægt sé að miða hann út. Kerfið gerir áhöfn þyrlunnar einnig kleift að eiga samskipti við hinn týnda, hvort sem er með SMS skeytasendingum eða símtali.
Apríl
Í byrjun apríl tók Landhelgisgæsla Íslands við formennsku í Arctic Coast Guard Forum, samtökum strandgæslustofnana á norðurslóðum, til næstu tveggja ára. Um er að ræða samráðsvettvang átta strandgæslustofnana en finnska strandgæslan hefur farið með formennsku í ráðinu undanfarin tvö ár.
Georg Kr Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, veitti
sérstökum platta viðtöku við hátíðlega athöfn í Turku í dag og áréttaði
mikilvægi samstarfs stofnananna á norðurslóðum. Hann hrósaði finnsku
strandgæslunni fyrir vel unnin störf á undanförnum árum.
Á meðan Landhelgisgæslan gegnir formennsku verður sértök áhersla lögð á að efla samstarf ríkjanna átta enn frekar þegar kemur að leit og björgun auk þess sem mengunarvarnir og umhverfismál verða sett á oddinn. Þá verður umfangsmikil æfing haldin á Íslandi á vormánuðum 2021.
Strandgæslustofnanir átta ríkja, Bandaríkjanna, Danmerkur, Finnlands, Íslands, Kanada, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar, mynda samráðsvettvanginn.
Í apríl funduðu sérfræðingar strandgæslustofnananna átta um helstu áskoranir á svæðinu í Finnlandi auk þess sem æfingin Polaris 2019 fór fram. Þar voru æfð viðbrögð við neyðarástandi um borð í skemmtiferðaskipi undan ströndum Finnlands. TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, tók þátt auk þess sem starfsmenn stofnunarinnar voru í æfingarstjórn í samhæfingarstöð finnsku strandgæslunnar.

Áhöfnin á TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, stóð áhafnir þriggja fiskibáta að meintu ólöglegu brottkasti í apríl. Við reglubundið eftirlit á Íslandsmiðum náðust bæði myndir og myndbönd sem sýndu hið meinta brottkast. Skipstjórarnir voru kærðir.
Maí
Landhelgisgæslan fékk mannlaust loftfar til notkunar í maí sem gert var út frá Egilsstaðaflugvelli. Um var að ræða samstarfsverkefni EMSA, Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, og Landhelgisgæslunnar. Loftfarið var hér á landinu í um fjóra mánuði.
Fyrst og fremst var um að ræða tilraunaverkefni þar sem ómannað loftfar af þessari tegund var notað við eftirlit á hafsvæðinu umhverfis landið. Að auki var dróninn notaður við löggæslu, leit- og björgun og mengunareftirlit. EMSA var þjónustuaðili drónans og var þetta í fyrsta sinn sem stofnunin útvegar dróna af þessari stærð til notkunar.
Loftfarið kom meðal annars auga á meint brottkast, fann bát sem stjórnstöð Landhelgisgæslunnar náði ekki sambandi við og auðkenndi óþekkt skip og báta í lögsögunni.
Júní
Í júní fékk Landhelgisgæslan heimsókn frá varnar- og
öryggismálafulltrúum hinna ýmsu aðildarþjóða Atlantshafsbandalagsins. Að auki
voru fulltrúar Svíþjóðar og Finnlands með í för. Samstarf á sviði öryggis- og
varnarmála er afar mikilvægt en fulltrúarnir koma árlega til Íslands og kynna
sér stöðu mála hérlendis. Landhelgisgæslan hefur áður tekið á móti fulltrúunum
en í fyrra fékk hópurinn fræðslu um hvernig eftirliti væri háttað á hafinu
umhverfis Ísland með eftirlitsflugvélinni TF-SIF.

Þá kynnti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sér varnartengd verkefni Landhelgisgæslu Íslands í heimsókn sinni til Íslands um miðjan júní.
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Jón B Guðnason, framkvæmdastjóri varnarmálasviðs LHG, og Guðrún Þorgeirsdóttir, verkefnastjóri, voru í hópi þeirra sem tóku á móti Stoltenberg við komuna til landsins.
Áhafnir Landhelgisgæslunnar gangast undir margskonar þjálfun
og það er alveg óhætt að fullyrða að þessar æfingar séu einn mikilvægasti
þátturinn í starfi þeirra sem sinna leit- og björgun. Að jafnaði fer þjálfunin
fram hér á landi en einstaka sinnum erlendis. Sumar aðstæður krefjast þess að
æft sé í sérstökum tækjum sem ekki er að finna á Íslandi og dæmi um það er
þjálfun í að bjarga sér úr þyrlu sem lendir í vatni.
Á hringferð varðskipsins Týs í júní var ástand hátt í 50
vita kannað. Um 15-19 tonn af smíðaefni, lögnum og öðrum búnaði voru tekin með
við brottför frá Reykjavík sem flytja átti að fjörunni við Hornbjargsvita ásamt
gröfu. Þar stóðu yfir framkvæmdir við vitavarðarhús sem Ferðafélag Íslands
rekur.

Upphaflega stóð til að flytja búnaðinn með þyrlu Landhelgisgæslunnar en þar sem þyrlan var vant við látin voru góð ráð dýr. Áhöfnin á varðskipinu dó ekki ráðalaus og fann leiðir til að koma búnaðinum í land með léttbátum, líkt og gert var hér áður fyrr áður en þyrlur urðu almennar á Íslandi til þessara verka.
Heljarmennin í áhöfn varðskipsins gengu afar rösklega til verks og áður en langt um leið var búið að koma öllum búnaði í land með bátum í alls 55 ferðum.
Júlí

TF-GRO kemur til landsins
Ágúst
Um miðjan ágúst óskaði slökkviliðsstjórinn í Grindavík eftir
aðstoð Landhelgisgæslunnar vegna elds sem logaði í djúpum mosa austan
Djúpavatns við Lækjarvelli. Áhöfnin á TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var
send til að aðstoða við slökkvistarf og hefta útbreiðslu eldsins og hafði
slökkviskjólu með í för. Greiðlega gekk að hefta útbreiðslu eldsins. Áhöfnin á TF-LIF tók mynd úr lofti af svæðinu
eftir að slökkvistarfi lauk en græna slikjan sýnir svæðið þar sem vatn fór á
óbrunninn mosann.
Geir Legan, varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar, var
fulltrúi Landhelgisgæslunnar í Reykjavíkurmaraþoninu. Hann gerði sér lítið
fyrir og hljóp heilt maraþon. Það verður að teljast einstaklega hraustlega
gert, sérstaklega í ljósi þess að Geir gekkst undir krabbameinsaðgerð fyrr á
árinu þar sem tvö lungnablöð af fimm voru fjarlægð.
September
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, var meðal
þeirra sem tóku á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna við komuna til
landsins í september en hluti heimsóknarinnar fór einmitt fram á öryggissvæði
LHG í Keflavík. Varaforsetinn heimsótti meðal annars stjórnstöð
Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli sem rekin er af Landhelgisgæslu
Íslands.
Þá hitti varaforsetinn Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á fundi í húsi LHG áður en hann hélt af landi brott á níunda tímanum í kvöld.
Séraðgerða- og sprengjueyðingardeild kom að öryggisgæslu,
áhöfnin á TF-EIR var með viðbúnað úr lofti og varðbáturinn Óðinn var til taks
við Höfða svo fátt eitt sé nefnt. Að auki hafði starfsfólk Gæslunnar á
Keflavíkurflugvelli í mörg horn að líta vegna komu varaforsetans.
Tveimur var bjargað um borð í TF-EIR eftir að 12 metra handfærabátur strandaði rétt utan við Skála á sunnanverðu Langanesi þann 10. september. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall skömmu eftir miðnætti og þremur tímum síðar voru mennirnir komnir um borð í þyrluna.
Northern Challenge, árleg æfing sprengjusérfræðinga, var
haldin í átjánda sinn. Um er að ræða alþjóðlega æfingu Atlantshafsbandalagsins
sem Landhelgisgæslan hefur veg og vanda af. Hún fór að stærstum hluta fram á
starfssvæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli en jafnframt á
hafnarsvæðum víðs vegar á Suðurnesjum.
Áhafnir varðskipanna Þórs og Týs héldu sameiginlegar leitar- og björgunaræfingar á Faxaflóa um miðjan september. Æfingin var liður í að stilla saman strengi áhafna beggja varðskipa en ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar tók sömuleiðis þátt.
Landhelgisgæslan
tók við tveimur vélmennum til sprengjueyðingar frá danska hernum. Vélmennin eru
þýsk og hafa undanfarinn áratug verið í eigu danska landhersins. Danir
endurnýjuðu fyrir skemmstu vélmennin sín og ákváðu að því tilefni að gefa
Landhelgisgæslunni tvö eldri vélmenni. Afar gott samstarf hefur verið milli
danska landhersins og séraðgerða- og sprengjueyðingarsveitar
Landhelgisgæslunnar undanfarna áratugi.
Október
Áhöfnin á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, tók þátt í skemmtilegu samfélagsverkefni í október þegar bangsanum Blæ var komið til bjargar og hann fluttur á leikskólann Laut í Grindavík. Þar biðu hans leiksskólabörn sem voru búin að fræðast um raunir Blæs sem lenti í háska á leið sinni til Grindavíkur frá Ástralíu. Þyrlan kom Blæ til bjargar og flutti á áfangastað.
Á árinu
fjölgeislamælir eftirlits- og sjómælingaskipsins Baldurs endurnýjaður. Nýi
mælirinn er af gerðinni Teledyne RESON SEABAT T50-ER og er hann mikil bylting
frá eldri mæli. Munar þar helst um mun meiri nákvæmni og upplausn auk þess sem
hann getur mælt á talsvert meira dýpi. Þá var einnig bætt við nýjum mæli,
svokölluðum jarðlagamæli, sem notaður er til að mæla þykkt setlaga á hafsbotni.
Slíkar mælingar eru í þágu vísindasamfélagsins, en sem kunnugt er tekur
Landhelgisgæslan þátt í verkefni með Hafrannsóknastofnun og fleiri vísinda- og
rannsóknarstofnunum um kortlagningu hafsbotnsins.
TF-SIF,
flugvél Landhelgisgæslunnar, kom heim til Íslands í október eftir langt og
strangt úthald á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópu. Vélinni var flogið
til Malaga á Spáni þann 30. júlí og hafa áhafnir Landhelgisgæslunnar skipst á
að sinna eftirlitinu sem fram fer á Miðjarðarhafi. Á þessum tæpu þremur mánuðum
hafa áhafnir flugvélarinnar stuðlað að björgun rúmlega 1300 flóttamanna á
Miðjarðarhafi. Núna stendur yfir langþráð uppfærsla á eftirlitsbúnaði
flugvélarinnar sem lýkur eftir áramót.
Sigurður
Steinar Ketilsson, fyrrverandi skipherra, lést á Landspítalanum 27. október. Sigurður
Steinar hóf störf hjá Landhelgisgæslunni sem háseti á varðbátnum Maríu Júlíu
þann 13. apríl 1968. Ferilinn var glæsilegur og spannaði hálfa öld.
Áhöfnin á
TF-LIF aðstoðaði Bláa herinn í október með því að sækja 17 troðfulla sekki af
fjörurusli sem vaskur hópur hafði fyllt í nokkrum ferðum sínum við Húshólma í
nágrenni Grindavíkur. Samtals var um 1200 kíló af rusli ferjað í ruslagám í
fimm ferðum þyrlunnar. Landhelgisgæslan er stolt af því að geta aðstoðað í
verkefni sem þessu enda skiptir það okkur öll máli að landið okkar sé hreint og
fagurt.

Sérfræðingar strandgæslustofnana á norðurslóðum hittust á Húsavík í lok október til að bera saman bækur sínar og fjalla um brýn mál sem við koma leit- og björgun auk mengunareftirlits á norðurslóðum. Þetta var fyrsti viðburðurinn sem haldinn er hér á landi eftir að Landhelgisgæslan tók við formennsku í Arctic Coast Guard Forum, samtökum strandgæslustofnana á norðurslóðum.
Nóvember
Það var
hjartnæm stund í flugskýli Landhelgisgæslunnar þegar fjölskylda Jennýjar Lilju
Gunnarsdóttur afhenti þyrlusveit Landhelgisgæslunnar mikilvægar gjafir úr
minningarsjóði Jennýjar Lilju. Um fjórar lyfjadælur var að ræða auk tveggja
blóð og vökvahitara. Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar
veitti gjöfunum viðtöku.
Rúmlega
tuttugu tonna fiskibátur strandaði við Gölt á utanverðum Súgandafirði um miðjan
nóvember. Fjórum mönnunum var bjargað um borð í þyrlu landhelgisgæslunnar um
tveimur tímum eftir að neyðarkall barst til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar.
Tveimur vikum síðar var fjórum mönnum bjargað um borð í TF-EIR eftir að fiskibátur strandaði í vestanverðum Þistilfirði.
Desember
Landhelgisgæslan opnaði í byrjun desember aðgang að vefsjá með íslenskum sjókortum. Stofnunin hefur á liðnum mánuðum átt í góðu samstarfi við Landmælingar Íslands og notið liðsinnis starfsmanna Landmælinga við að hrinda þessu verkefni í framkvæmd.
Georg Kr.
Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Eydís Líndal, forstjóri Landmælinga
Íslands, gerðu með sér samning í fyrra sem fól í sér samstarf stofnananna um
aukið aðgengi almennings að rafrænum kortaupplýsingum og endurbættum kortagögnum
af strandlínu landsins.
Opnun
kortavefsjárinnar er liður í þessu aukna samstarfi. Vefsjána má finna hér:
Þá sigraði Landhelgisgæslan lið konunglega breska flughersins í vináttuleik í knattspyrnu í byrjun desember. Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.
Landhelgisgæslan
hafði í nógu að snúast vegna óveðursins sem reið yfir landið um miðjan desember.
Áhöfnin á varðskipinu Þór sinnti fjölmörgum verkefnum auk þess sem varðskipið
var nýtt sem aflstöð fyrir Dalvík. Þetta var í fyrsta sinn sem varðskipið Þór
var nýtt sem hreyfanleg rafstöð. Þá var áhöfnin á TF-LIF til taks á Norðurlandi
og tók þátt í leit að pilti sem féll í Núpá í Sölvadal. Áhöfnin á þyrlunni fann
piltinn látinn í ánni. Þá óskaði Landhelgisgæslan eftir aðstoð frá danska
flughernum vegna aðstæðna á Norðurlandi til að flytja viðbragðsaðila og búnað
norður.

Danir tóku vel í hjálparbeiðni Landhelgisgæslunnar og var danskri C130 Hercules flugvél flughersins sem var skammt undan ströndum Íslands snúið við og lenti vélin á Íslandi skömmu síðar. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar fór með vélinni norður ásamt björgunarsveitarmönnum, starfsönnum Rariks og Landsnets.


Landhelgisgæslan er afar þakklát Dönum fyrir
hversu vel þeir brugðust við.
Í
desember skráði Landhelgisgæslan sig í verkefnið Grænu skrefin en það snýst um
að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Alls taka 80 ríkisstofnanir
þátt.
Landhelgisgæslan óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.