ARCSAR ráðstefna haldin í Reykjavík
Landhelgisgæslan í samstarfi við samstarfsaðila í ARCSAR samstarfinu stendur fyrir áhugaverðri ráðstefnu.
13.9.2023 Kl: 10:18
Landhelgisgæsla Íslands í samstarfi við þátttakendur í ARCSRAR samstarfsverkefninu stendur fyrir áhugaverðri ráðstefnu á morgun og föstudag á Hilton Reykjavík Nordica.
Landhelgisgæslan hefur undanfarin fimm ár tekið þátt í ARCSAR sem stendur fyrir Arctic and North Atlantic Security and Emergency Preparedness Network.
Samstarfsvettvangurinn hverfist um öryggismál á hafinu og björgunarviðbrögð á norðurslóðum. Athygli samstarfsvettvangsins hefur ekki síst verið beint að aukinni skipaumferð á norðurslóðum og leiðum til að auka samvinnu meðal leitar- og björgunaraðila, skemmtiferðaskipaiðnaðarins og háskólasamfélagsins.
Á ráðstefnunni verða lykilniðurstöður og meginmarkmið verkefnisins til umfjöllunar. Dæmi um umfjöllunarefni erinda eru t.d. áskoranir viðbragðsaðila þegar kemur að olíumengun í sjó, nýsköpun er varða björgunarviðbrögð, lærdómur frá æfingum sem haldnar hafa verið, rannsóknir er varða lífsmöguleika í kulda og margt fleira.
Fyrirlesarar á ráðstefnunni verði margir af færustu sérfræðingum á sínu sviði sem koma úr röðum viðbragðsaðila, fræðasamfélagsins, skemmtiferðaskipaiðnaðarins og tæknifyrirtækja.
Nokkur laus sæti eru á ráðstefnuna og geta áhugasamir skráð sig hér:
https://arcsar.eu/upcoming-events/international-arcsar-conference-reykjavik-iceland/#mec-speaker-info-1388-120Landhelgisgæslan