Arctic Guardian 2017 lauk í dag

Æfingin sem haldin var á Íslandi gekk vel og eru frekari æfingar á vegum ACGF boðaðar

Á grundvelli samþykktar Norðurskautsráðsins um samstarf á sviði leitar og björgunar vegna sjófarenda og loftfara á norðurslóðum héldu Samtök strandgæslustofnana á norðurslóðum, Arctic Coast Guard Forum (ACGF), æfinguna Arctic Guardian 2017 dagana 5.-8. September við Ísland. Æfingin heppnaðist afar vel. Arctic Guardian 2017 er fyrsta eiginlega æfingin sem haldin er undir merkjum ACGF. Hún er mikilvægt skref í þá átt að dýpka samstarf þeirra stofnana sem fara með strandgæslumál í norðurslóðaríkjunum átta: Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Kanada, Noregi, Rússlandi og Svíþjóð. Fleiri æfingar verða haldnar undir merkjum ACGF í framtíðinni sem byggðar verða á þeirri reynslu og lærdómi sem varð til með Arctic Guardian 2017.

Arctic Guardian 2017 hefur dýpkað fjölþjóðlega samvinnu

Ef slys eða óhöpp verða á hafsvæði norðurslóða geta margir dagar liðið áður en hjálp berst. Slík óhöpp geta áhrif á mörg ríki, svo ekki sé minnst á viðkvæm vistkerfi norðlægra breiddargráða. Samvinna skiptir því sköpum til að tryggja öryggi fólks og vernda umhverfið. ACGF er mikilvægur vettvangur fyrir alþjóðlega samvinnu og samhæfingu með það að markmiði að auka siglingaöryggi og umhverfisvernd á norðurslóðum.


Frá blaðamannafundi forstjóra aðildarstofnana ACGF um borð í norska varðskipinu Andenes í dag. 

Arctic Guardian var leitar- og björgunaræfing. Markmið hennar var að láta reyna á getu leitar- og björgunareininga aðildarstofnananna til samstarfs. Auk þess æfðu björgunarmiðstöðvar (RCC) aðildarríkjanna átta samskipti sín á milli. Í þeim tilgangi prófuðu þær sérstakt boðskiptakerfi og lofar sú tilraun góðu. Strandgæslustofnanir Danmerkur, Kanada, Noregs, Bandaríkjanna og Íslands lögðu til skip til æfingarinnar en auk þess komu flugvélar og þyrlur frá bandarísku, dönsku, kanadísku og íslensku stofnununum. 

ACGF hefur þróað sérstakar valkvæðar leiðbeiningar um samhæfðar aðgerðir til að auka árangur samvinnu á þessu sviði. Æfingin Arctic Guardian 2017 leiddi í ljós að þessar leiðbeiningar hefðu ótvírætt notagildi. 

Ríkur vilji til áframhaldandi samstarfs 

Þessi leitar- og björgunaræfing á eftir að reynast mjög drjúg undirstaða til að þróa fleiri sameiginlegar æfingar sem aftur gætu leitt til nánara og skilvirkara samstarfs. Með því að deila besta verklagi og starfsaðferðum má stuðla að öruggari og markvissari leitar- og björgunaraðgerðum á norðurslóðum. ACGF leggur mikla áherslu á að styrkja samstarfið og dýpka samvinnuna svo öryggi verði áfram tryggt við siglingar á norðurslóðum, bæði fyrir sjófarendur og lífríkið allt.