Arctic Guardian stendur sem hæst

Fyrsta leitar- og björgunaræfing ACGF hefur gengið vel það sem af er

Alþjóðlega leitar- og björgunaræfingin Arctic Guardian 2017 stendur nú sem hæst en samtök strandgæslustofnana norðurslóðaríkjanna átta (Arctic Coast Guard Forum) standa fyrir æfingunni og er hún sú fyrsta sem haldin er undir merkjum þeirra.

Í gær leituðu þátttakendur á æfingunni að sex björgunarbátum sem áttu að tilheyra farþegaskipi í sjávarháska. Auk strandgæsluskipanna fimm sem taka þátt í æfingunni voru flugvélar og þyrlur notaðar við leitina: Challenger-þota danska flughersins, P-8-vél frá Bandaríkjunum og TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar. Skemmst er frá því að segja að undir kvöld var búið að finna nær alla björgunarbátana, ýmist með flugvélunum eða skipunum.


Bandaríska strandgæsluskipið Spencer nálgast björgunarbát. Myndin er tekin úr P-8 flugvél Bandaríkjahers.

Í dag heldur æfingin áfram en þá er verkefnið að leita að manni sem fallið hefur útbyrðis af farþegaskipinu. Sú æfing fer fram með svipuðum móti en leitarsvæðið er þó skilgreint öðruvísi sökum þess að rek björgunarbáta og mannslíkama (eða brúðu eins og í þessu tilfelli) í sjó er ekki eins eins.


Leitarsvæði dagsins

Á morgun verður svo efnt til sérstakrar æfingar á Kollafirði þar sem æfð verða viðbrögð við eldsvoða eða leka um borð í skipi. Æfingin fer að mestu fram í kanadíska ísbrjótnum Pierre Radisson en öll skipin á Arctic Guardian taka þátt í henni. Þessari fyrstu æfingu ACGF lýkur svo formlega á laugardaginn. 

Georg Kr. Lárusson, forstjóri LHG, Auðunn Kristinsson, verkefnastj. á aðgerðasviði LHG og Einar Valsson skipherra spá í spilin í björgunarmiðstöð LHG í Skógarhlíð í morgun.