15. desember, 2016
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar komu saman í dag til árlegrar jólastundar sem er ómissandi þáttur í starfseminni á aðventu. Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar flutti ávarp þar sem hann meðal annars hrósaði starfsmönnum fyrir dugnað og elju við úrlausn fjölmargra vandasamra verka á árinu sem einnig er 90 ára afmælisár Landhelgisgæslunnar.
Hlýtt var á upplestur jólaguðspjallsins sem að þessu sinni var lesið af Sverri Guðmundi Harðarsyni, starfsmanni í séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar og nýútskrifuðum kafara. Þá kom sönghópurinn Lyrika í heimsókn og söng inn jólin með fallegum tónum.
Tveir starfsmenn sem hófu töku eftirlauna á árinu voru sérstaklega heiðraðir, þeir Lárus Jóhann Jóhannsson vaktstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og Steinar Már Clausen varðstjóri í varðskýli Landhelgisgæslunnar á Faxagarði og fyrrum bátsmaður sem fór nú á eftirlaun eftir 44 ára farsælt starf. Þá voru einnig heiðraðir þeir starfsmenn sem fögnuðu fimmtugs- og sextugsafmælum á árinu.
Hér eru nokkrar myndir frá þessari hátíðlegu jólastund sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók.
 |
Greinilega eitthvað skemmtilegt í gangi. Frá vinstri: Ragnheiður Þórólfsdóttir gjaldkeri, Linda María Runólfsdóttir launafulltrúi, Harpa Karlsdóttir fulltrúi á mannauðssviði, Steinvör Gísladóttir ritari forstjóra og Snjólaug Guðjohnsen sjókortagerðarmaður. |
 |
Mjög glaðir þessir enda fá þessir að hanga í vinnunni; þeir eru allir sigmenn sem sagt. Frá vinstri: Henning Þór Aðalmundsson, Guðmundur Ragnar Magnússon, Hreggviður Símonarson og Gísli Valur Arnarson. |
 |
Hið stórglæsilega rekstrarsvið Landhelgisgæslunnar. Frá vinstri; Andrea Jónsdóttir bókari, Sandra Margrét Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, Margrét Óskarsdóttir bókari, Fríða Aðalgeirsdóttir deildarstjóri rekstrargreiningar og Berglind Hrönn Edvardsdóttir bókari. |
 |
Sönghópurinn Lyrika söng af stakri snilld og kom öllum í jólaskap. |
 |
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar heiðrar Lárus Jóhann Jóhannsson. |
 |
Steinar Már Clausen heiðraður af forstjóra eftir 44 ára starf. |
 |
Glæsilegir kappar þeir Steinar Már Clausen og Lárus Jóhann Jóhannsson. |