Athygli vakin á hárri sjávarstöðu næstu daga

Landhelgisgæsla Íslands vekur athygli á hárri sjávarstöðu næstu daga en stórstreymt er um miðja vikuna samfara fremur lágum loftþrýstingi og vindáhlaðanda.

 

Sjávarhæð í útgefnum sjávarfallaspám er miðuð við 1013 hPa (mb) loftþrýsting. Tengsl eru milli loftþrýstings og sjávarhæðar á þann hátt að lækki loftþrýstingur um eitt hPa þá hækkar sjávarborðið um u.þ.b. einn sentimetra á móti.

Samkvæmt veðurspám má búast við að um tíma í vikunni geti loftþrýstingur orðið nálægt 970 hPa og gangi það eftir bætast því rúmir 40 sentimetrar ofan á útgefna flóðspá. Við það má svo bæta aukinni hækkun sjávarborðs vegna áhlaðanda þegar mjög hvass vindur stendur lengi að landi.

Á morgun þriðjudag er gert ráð fyrir suðvestan stormi á suðvesturdjúpi og suðvesturmiðum með tilheyrandi ölduhæð og áhlaðanda sem gæti haft áhrif á sjávarhæð sunnan- og vestanlands fram á miðvikudag.

Á miðvikudag er svo gert ráð fyrir að kominn verði norðan stormur norður af landinu sem vara mun fram á föstudag. Á norðan- og norðvestanverðu landinu má því gera ráð fyrir aukinni sjávarhæð samfara mikilli ölduhæð og áhlaðanda um og eftir miðja vikuna.