Baldur úr slipp
Skipið tilbúið fyrir mælingar sumarsins.
14.4.2023 Kl: 12:02
Sjómælingaskipið Baldur kom úr slipp hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur í vikunni en þar hefur það verið síðan um miðjan febrúar. Hefðbundið viðhald og eftirlit var framkvæmt í samræmi við skilmála flokkunarfélagsins Bureau Veritas.
Fyrst og fremst var um bolskoðun að ræða auk botnhreinsunar og botnmálunar. Skipið var einnig heilmálað ofan sjólínu. Þá var unnið að minniháttar viðhaldi í vélarúmi auk þess sem unnið var að lagfæringum á gólfi í brú og í vistarverum áhafnar.
Baðherbergi skipsins var endurnýjað og lagfæringar gerðar á tveimur klefum þess. Kojur voru breikkaðar og betri einangrun sett á milli klefa. Þá var skipt um gólfefni í brú auk þess sem heimilistæki um borð voru endurnýjuð.
Á síðustu fimm árum hafa vélar skipsins verið teknar í gegn. Allar aðalvélar og ljósavélar hafa verið gerðar upp og eru í góðu ásigkomulagi.
Í ár eru 32 ár síðan Baldur var tekinn í notkun og hefur hann reynst Landhelgisgæslunni afar vel.
Baldur í febrúar.
Botn Baldurs fyrir viðhaldið.