Bangsinn Blær í þyrluferð

Áhöfnin á TF-SYN, þyrlu Landhelgisgæslunnar tók þátt í sérlega skemmtilegu verkefni í dag er áhöfnin flaug með bangsann Blæ og aðstoðarbangsa hans á Vífilsstaðatún í Garðabæ og afhenti þar bangsana börnum á leikskólum í Garðabæ. Verkefnið er hluti af forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti.

Bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu. Blæ fylgja litlir aðstoðarbangsar en saman tákna bangsarnir traust og vináttu og er ætlað að minna börnin á að passa upp á aðra og vera góður félagi allra. Börnin tóku afar vel á móti áhöfn þyrlunnar og brostu út að eyrum er litlu bangsarnir komust í hendur þeirra. Þau sögðust svo sannarlega ætla að gæta bangsanna vel.

Þessar krúttlegu myndir tók áhöfnin á þyrlunni af alsælum börnunum með vináttubangsana.

 
Þyrlan lent og börnin koma að skoða fararskjóta bangsanna.
 
Börnin alsæl með Blæ og aðstoðarbangsa hans.