Bát hvolfdi í Hvalfirði
Einn var um borð í bátnum.
12.8.2024 Kl: 20:55
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, lögregla, áhöfnin á sjómælingaskipinu Baldri og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út á áttunda tímanum í kvöld í kjölfar þess að tilkynnt var um bát á hvolfi í Hvalfirði.
Vegfarendur sögðu bátinn vera um 300 metra frá landi og sáu mann á kili bátsins. Björgunarsveitir frá Akranesi, Kjalarnesi og Reykjavík héldu á staðinn og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var ræst út á mesta forgangi.
Þegar þyrlusveit og björgunarsveitarfólk kom á vettvang hafði manninum tekist að komast af sjálfsdáðum í land. Viðbragðsaðilar hlúðu að manninum sem var bæði kaldur og blautur eftir óhappið.
Hann var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar til frekari skoðunar á sjúkrahús í Reykjavík.
Sjómælingaskipið Baldur
Sjöfn frá Reykjavík.