Bátur sem féll úr tilkynningarskyldu fannst eftir stutta leit

Landhelgisgæslan hvetur sjófarendur til að gæta að hlustvörslu.

  • _S4I8081-4

8.5.2023 Kl: 17:42

Þyrla Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, voru kallaðar út í hádeginu vegna fiskibáts sem datt úr sjálfvirkri tilkynningarskyldu og svaraði ekki kalli stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar. 

 

Að auki voru áhafnir fiskibáta í grenndinni beðnar um að halda á þann stað þar sem síðast var vitað um bátinn. Þegar merki frá fiskibátnum hætti að berast stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var hafist handa við að ná sambandi við þann sem var um borð en án árangurs.

 
Þyrla Landhelgisgæslunnar tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 12:45 og áhöfn þyrlunnar fann fiskibátinn stundarfjórðungi síðar. Ekkert amaði að þeim sem var um borð.

 
Landhelgisgæslan minnir skip og báta á að hlusta á neyðarrás 16 á VHF sem er mikilvægur þáttur í öryggismálum sjómanna.